Tindastóll lætur ekki deigan síga á meðan á samkomubanninu stendur, en Sauðkrækingar tilkynntu í dag að þeir hefðu náð samkomulagi við Nick Tomsick fyrir komandi tímabil í Domino’s deild karla.

Tomsick, sem er 29 ára Bandaríkjamaður með króatískt vegabréf, hefur leikið síðustu tvö tímabil á Íslandi, fyrra tímabilið með Þór Þorlákshöfn og á síðasta tímabili með Stjörnunni. Á nýliðnu tímabili skoraði Tomsick um 20 stig að meðaltali í leik með Stjörnunni, í liðinu sem vann bæði deildar- og bikarmeistaratitil.