NBA deildin mun leyfa einhverjum liðum að opna æfingaaðstöðu sína þann 1. maí. Samkvæmt Adrian Wojnarowski, mun þetta verða gert hjá þeim félögum sem staðsett eru í borgum og ríkjum sem hafa slakað á aðgerðum sínum er settar voru í gang vegna Covid-19 faraldursins.

Samkvæmt fréttunum verður æfingaaðstaða þessara liða fyrst um sinn aðeins opnuð fyrir einstaklingsæfingar. Þá mun deildin einnig vinna að annarri lausn með þeim liðum sem eru í borgum eða fylkjum sem ekki slaka á sínum sóttvarnaraðgerðum.

NBA deildin frestaði leik þann 11. mars vegna Covid-19 og hefur enn ekki tilkynnt hvenær eða hvernig tímabilið verður klárað. Þar sem að deildarkeppnin var ennþá í gangi, er líklegt að ekki verði hægt að fara beint í úrslitakeppni þegar og ef snúið er aftur, en deildin er talin líkleg til þess að setja á úrslitaleiki fyrir þau lið sem enn voru í möguleika á að komast í úrslitakeppnina.

Ef deildin fer af stað á nýjan leik, er enn möguleiki að það verði gert á hlutlausum stað og með engum áhorfendum, þar sem að á mörgum stöðum í Bandaríkjunum munu enn gilda fólksfjöldatakmarkanir á viðburði.

Samkvæmt fréttum ESPN, hefur deildin lagt til að liðin og leikmennirnir fái 25 daga til þess að æfa áður en að farið er aftur af stað. Óljóst er á þessum tímapunkti hvort að þessi opnun æfingaaðstöðu 1. maí merki upphafið á þeim tíma.