Dr. László Németh kom til Íslands í ágústmánuði 1988 til að þjálfa íslenska landsliðið og karlalið KR. Hann var mikill körfuknattleiksheili, á undan sinni samtíð og gerði margt gott fyrir körfuna hér. Eitt af því sem László innleiddi á Íslandi er tölfræðiskráning leikja. Í dag er tölfræðin í gagnagrunni sem auðvelt er að nálgast og úr tölfræðinni má lesa áhugaverðar staðreyndir.

Þegar Dominos deild karla (Ddk) var blásin af nýverið, höfðu leikmenn hvers liðs leikið 4.200 mín. auk mínútna í framlengingum. Í tölfræðigrunni KKÍ má m.a. sjá hvaða lið eru talin vera uppeldisfélög leikmanna. Pistlahöfundur fór í gegnum spiltíma allra leikmanna í Ddk á þessu keppnistímabili, tengdi spiltíma þeirra við uppeldisfélög og fékk út hversu mörg prósent af spiltíma félags eru leiknar af heimamönnum þess (sjá mynd). Þessi tölfræði verður ekki greind hér. Heldur er henni varpað fram til að skapa umræður.