Keflvíkingar eru byrjaðir að safna liði fyrir næsta tímabil Domino’s deildar karla, en félagið tilkynnti í dag að hinn litháíski Dominykas Milka verði áfram í herbúðum liðsins á næstu leiktíð.

Milka kom til Keflavíkur fyrir síðasta sumar og var máttarstólpi í liðinu sem endaði í öðru sæti í Domino’s deildinni, áður en henni var slitið vegna COVID 19 faraldursins. Milka skilaði tæpu 21 stigi og 12 fráköstum að meðaltali í leik með Keflavík, og verður fróðlegt að sjá kappann klæðast bláu og hvítu að nýju næsta haust.