Martin Hermannsson leikmaður Aba Berlin í Þýskalandi og EuroLeague er með lausan samning eftir þetta tímabil. Tímabil sem reyndar er ekki búið, en leik á báðum stöðum var frestað vegna Covid-19 faraldursins og er því ekki vitað hvort eða hvernig það muni enda.

Martin var gestur í síðustu upptöku af Boltinn Lýgur Ekki, en ásamt því að fara yfir ferilinn til þessa rýndi hann þar í hvað framtíðin bæri í skauti sér. Sagðist hann þar, ásamt öðru, vera líklegur til þess að reyna fyrir sér í sumardeild NBA deildarinnar í sumar. 

Sumardeildin er árleg keppni liða NBA deildarinnar þar sem að liðin eru venjulega með nýliða, annars árs leikmenn og þá sem að líklegir þykja til þess að eiga erindi í deildina. Sagði Martin í viðtalinu að hann væri búinn að fá boð um að koma í lið og væri alvarlega að íhuga það, sérstaklega í ljósi þess að nú gæfist tækifæri til þess, þar sem að samningar hans við Berlínarliðið væru lausir eftir tímabilið.

Sagði Martin ennfrekar að reynsla hans úr EuroLeague hafi sýnt honum að hann geti spilað með þeim bestu og að enginn væri í þessu, nema að allavegana hugsa til þess reyna fyrir sér í NBA deildinni. 

Upptökuna má heyra í heild hér, en umræðu um lausa samninga og framtíðina er að finna á 01:02:30.