Framherji Miami Heat, stjörnuleikmaðurinn Jimmy Butler, sér til þess að liðsfélagar sínir geti æft sig þrátt fyrir að vera frá æfingum þessa dagana vegna Covid-19 faraldursins.

Samkvæmt Miami Herald hefur Butler sent öllum leikmönnum og þjálfarateymi liðsins flytjanlegar körfur. Segir í fréttinni að búnaðurinn komi allur frá framleiðanda í Utah og hafi hann verið sendur til allra, jafnvel þeirra leikmanna sem eru með stutta samninga við liðið og búi jafnvel á hótelum í Miami á meðan að beðið er eftir ákvörðun deildarinnar um hvort eða hvenær tímabilinu ljúki.

Samkvæmt fréttinni munu þessir þjálfarar og liðsfélagar Butler ekki vera þeir einu sem fengu körfur sendar, en einnig hafi hann sent búnað til félagsmiðstöðva og skóla í Miami.

Enn er óljóst hvernig tímabil NBA deildarinnar verður leitt til lykta, en Heat voru í fjórða sæti austurstrandarinnar, með 41-24 árangur, þegar að öllu var frestað.