Haukur Helgi Pálson Briem, leikmaður íslenska landsliðsins og Unics Kazan, var gestur í síðustu upptöku af Boltinn Lýgur Ekki. Í þættinum fór hann yfir ferilinn til þessa, stöðuna í dag, framtíðina og margt fleira. Haukur var spurður út í þau kynslóðaskipti sem hafa verið að eiga sér stað í landsliðinu og hvernig honum lítist á framtíð liðsins.

Fór Haukur nokkuð ítarlega yfir feril sinn, sem bæði hefur verið útum allt sem og hefur hann leikið í nokkrum bestu deildum heimsins. Þó er ein sem Haukur hefur ekki enn leikið í, sú allra besta, NBA deildin, en sagði Haukur að sá möguleiki hafi látið á sér kræla síðasta sumar.

Þá hafi hann fengið boð um að leika með liði New Orleans Pelicans í sumardeild NBA 2019 í Las Vegas. Í sumardeildinni eru venjulega fyrsta og annars árs leikmönnum hvers liðs blandað saman við þá sem líklegir þykja til þess að eiga erindi í deildina. Þó svo að möguleikinn sé kannski ekki mikill á að landa samning með því liði sem þú leikur með beint eftir deildina, er þar um gríðarlega kynningu fyrir hvern leikmann að ræða, þar sem oftar en ekki þeir komast í sambönd við önnur lið deildarinnar í leiðinni.

Sagði Haukur það hafa komið sér mjög á óvart að liðið hafi boðið honum að koma og að í því hafi verið fólginn mikill heiður. Liðinu hafi sagst vanta lítinn framherja sem bæði gat spilað vörn og skotið þriggja stiga skotum, en fyrir þá sem hafa ekki séð leik með Hauki á síðustu árum, þá er það hlutverk sem hann svo sannarlega getur leikið.

Enn frekar sagðist Haukur hafa verið spenntur fyrir að prufa það að spila þarna, en hafi ákveðið að fara aðra leið, þar sem að dóttir hans hafi verið að koma í heiminn og hann hafi í staðinn fyrir NBA deildina fengið að upplifa eitthvað betra.

Haukur sagði NBA drauminn þó alltaf vera lifandi hjá sér og að þegar hann neitaði hafi liðið boðið honum að koma að ári, en í því árferði og óvissu sem heimurinn er í þessa stundina viti hann ekki hvað verður með það. Skýtur þáttastjórnandi þá að þeirri staðreynd að ekki sé útséð með hvort og hvernig sumardeildin fari fram þetta árið vegna Covid-19 faraldursins.

Ljóst er að Haukur hefði verið í nokkuð góðum hópi með New Orleans Pelicans í fyrra, þar sem öll augu voru á liðinu og nýrri stjörnu þeirra, Zion Williamson. Zion spilaði þó bara 9 mínútur, en skoraði 11 stig í deildinni áður en hann þurfti að hvíla vegna meiðsla, svo að ekki er ólíklegt að Haukur hefði fengið einhver tækifæri. Liðið sjálft endaði í fjórða sæti deildarinnar og duttu út í undanúrslitum fyrir Memphis Grizzlies, sem sigruðu deildina að lokum.

9 mínútur Zion í sumardeildinni 2019

Viðtalið við Hauk er hægt að nálgast í heild hér, sem og inni á iTunes, en umræðan um sumardeildina er á finna á 55:00.