Fyrir tæpum tveimur árum síðan gekk Hanna Þráinsdóttir til liðs við Georgian Court Lions. Lions leika í Central Atlantic hluta annarar deildar bandaríska háskólaboltans.

Hanna lék upp alla yngri flokka Hauka, sem og með meistaraflokki félagsins. Þá lék hún einnig með Skallagrím í Dominos deildinni, áður en hún færði sig yfir til ÍR í fyrstu deildinni á tímabilinu áður en hún hélt vestur um haf.

Karfan setti sig í samband við Hönnu og spurði hana út í háskólaboltann og lífið í Lakewood, New Jersey.

Hvernig fannst þér þetta annað ár ganga með Georgian Court Lions?


“Þetta var fyrsta árið mitt á vellinum, þar sem ég var að jafna mig eftir krossbandsaðgerð á síðasta ári og „redshirt-aði“. Árið í ár var krefjandi fyrir mig persónulega, ég var að koma til baka eftir löng meiðsli og aðlagast nýjum leikstíl, auk þess sem ég fékk strax mikla ábyrgð og var gerð að fyrirliða. Ég lærði hins vegar helling, bætti mig í hverjum leik og seinni hlutann á tímabilinu var ég farin að spila vel. Hvað árangur liðsins varðar var þetta tímabil töluverð vonbrigði, í fyrra komumst við í úrslitakeppni í CACC deildinni og markmiðið í ár var að vinna deildina og spila í NCAA mótinu. Það fór ýmislegt úrskeiðis hjá okkur og það endaði með því að við komumst ekki í úrslitakeppni. Við styrktumst hins vegar mikið sem lið í þessum aðstæðum, sem er glæsilegt upp á framtíðina að gera”

Er mikill munur á lífinu í Lakewood og hér heima?

“Helsti munurinn er að búa á háskólasvæði (campus) og þar sem skólinn minn er frekar lítill er allt sem ég þarf í 5 mínútna göngufjarlægð. Ég spara því mikinn tíma sem hefði farið í keyrslu og annað hér heima, sem ég get núna notað í æfingar og lærdóm. Ótakmarkaður aðgangur að íþróttahúsi og lyftingasal, kennslustofum og bókasafni er algjör lúxus og hentar mér mjög vel. Lakewood er áhugaverður staður, um leið og maður stígur út fyrir háskólasvæðið tekur við manni annar heimur, samfélag heittrúaðra gyðinga, mjög svipað og má sjá í Netflix þáttunum Unorthodox (mæli með), og því er alltaf mikil upplifun að keyra í gegnum Lakewood. Við erum korter frá ströndinni sem er frábært þegar veðrið er gott, og New York City er í klukkutíma fjarlægð sem er líka algjör snilld”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima?

“Já, það finnst mér. Helsti munurinn er hraðinn á leiknum og styrkur leikmanna. Fyrst þegar ég byrjaði að spila fannst mér eins og það væri búið að ýta á „spóla áfram“ takkann á leiknum, allt gerðist svo hratt. Hér eru líka margar stórar og sterkar stelpur sem hafa hraða í þokkabót, og eru því erfiðar við að glíma. Hver sókn og hver vörn skipta gríðarlega miklu máli í leikjum, og því er mun minna svigrúm fyrir mistök. Þó maður geri marga góða hluti í leik geta ein mistök þurrkað þá alla út. Æfingar eru verulega „intense“ og maður þarf að vera fullkomlega einbeittur hverja einustu sekúndu, heima er svigrúm til að gera mistök og læra af þeim á liðsæfingu, en úti er í raun gerð krafa um að maður lagi mistökin á sínum eigin tíma svo liðsæfingar geti verið eins fullkomnar og hægt er”

Er mikill munur á tímabilinu hér heima og úti í háskólaboltanum?

“Tímabilið úti er styttra en heima, en við spilum samt svipaðan fjölda af leikjum. Það er í raun samanþjappaðara og við spilum alltaf tvo leiki í viku, svo það er mikið álag”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði? Náðuð þið að klára tímabilið og skóla?

“Þar sem við komumst ekki í úrslitakeppni var tímabilið okkar búið áður en allt skall á. Við áttum að byrja „post-season“ í vikunni sem allt lokaði í Bandaríkjunum og það voru auðvitað vonbrigði að missa af því. Skólinn er í fullum gangi á netinu og önnin verður kláruð þannig”

Nú varst þú að klára þitt annað ár úti á Bandaríkjunum. Ertu að fara aftur út næsta haust? Hver eru helstu markmiðin körfuboltalega fyrir næsta tímabil?

“Ég fer aftur út næsta haust. Ég stefni á að geta tekið enn meiri ábyrgð og verið sterkari leiðtogi fyrir liðið mitt, en markmiðið okkar er að vinna CACC deildina og komast í NCAA mótið. Ég ætla að halda áfram að bæta mig í hverjum leik, sýna meiri stöðugleika, skila betri tölum og góðri framistöðu í mínu hlutverki og sýna hvað raunverulega í mér býr frá byrjun til enda tímabils”