Fyrir rúmu ári síðan tók Gunnlaugur Smárason við liði Snæfells í Dominos deild kvenna. Gunnlaugur að sjálfsögðu öllum hnútum kunnugur í Hólminum, bæði verið þar til fjölda ára sem leikmaður og þjálfari á hinum ýmsu stigum.

Í bréfi sem birtist í Snæfellsblaðinu á dögunum fer Gunnlaugur yfir þetta síðasta tímabil og þakkar fyrir traustið sem sér var veitt á síðasta tímabili, en hann var í fyrsta skipti þar sem aðalþjálfari liðs í Dominos deildinni.

Bréfið er hægt að lesa í heild hér fyrir neðan, en í því tekur hann fram að hann muni ekki halda áfram með liðið á næsta tímabili, en muni þó vera félaginu innan handar í framtíðinni og ekki sé loku fyrir það skotið að hann taki að sér slík verkefni á nýjan leik með tíð og tíma.

Frábær reynsla

Það eru fáar fjölskyldur sem eru betri en Snæfellsfjölskyldan okkar. Fyrir rúmu ári hafði Gunni Svanlaugs samband við mig og sagðist vilja fá mig um borð til að stýra meistaraflokk kvenna. Ég hugsaði málið í nokkrar vikur með fjölskyldunni minni og komumst við að þeirri niðurstöðu að við gætum látið á þetta reyna. Ég vildi að sjálfsögðu hjálpa mínu uppeldisfélagi þegar kallið kom.  Ég fékk vin minn Gísla Pálsson til að vera aðstoðarþjálfari og þakka ég honum innilega sitt framlag til liðsins það skiptir máli að hafa mann sér við hlið sem sér hlutina stundum öðruvísi og er traustur. Svo var Gunnhildur Gunnars svona næsti aðstoðarþjálfari, það er mjög gott að hafa reynslubolta og keppniskonu eins og hana sér við hlið. Hún þekkir þetta allt inn og út og kenndi mér mikið á mínu fyrsta ári sem aðalþjálfari í kvennaliði. Í raun hef ég aldrei þjálfað kvennalið síðan Hildur Björg og fleiri voru að stíga sín fyrstu skref í mini-boltanum hérna um árið. Gunnhildur hefur eins og við öll vitum óstjórnandi áhuga á því að vinna og verða betri alla daga. Það er hugarfar sem við öll ættum að temja okkur. Hún er fyrirmynd sem ég get ekki hætt að hrósa og tala um, kærar þakkir fyrir þína hjálp Gunnhildur hún var mér og liðinu mikilvæg. 

Strax um vorið fórum við að hugsa um leikmannahópinn og vissum fyrir víst að Kristen væri í raun dottin út. Við tókum strax þá ákvörðun að reyna að halda tryggð við okkar heimastelpur og byggja þær upp fyrir kynslóðaskiptin sem við erum að ganga í gegnum. Viðbót við hópinn voru svo þrír erlendir leikmenn sem við töldum upp á vanta við annars fínan kjarna af íslenskum stúlkum. Það verður að viðurkennast að ég sá tækifæri til að vera með jafnari hóp og vildi ekki þennan afgerandi kana sem hefur verið hérna í mörg ár, það voru mín fyrstu mistök. Erlendi leikmaðurinn er gríðarlega mikilvægur í deildinni og það sýndi sig klárlega í fyrstu leikjunum og þá fimm leiki sem við vorum án kana en ég gef mér það eftir tímabilið að við höfum fengið góða reynslu á því að þurfa taka ákvarðanir innan sem utan vallar án kana í fjölmörgum leikjum. Heimastelpurnar græða án efa og ég vona að þær minnist þess þegar þær byrja sitt undirbúningstímabil fyrir næsta tímabil. 

Stelpurnar eiga hrós skilið fyrir að æfa og gera allt á fullu. Bætingin hjá mörgum leikmönnum leynir sér ekki og er ég stoltur fyrir þeirra hönd að hafa tekið skref fram á við (og jafnvel skref í fleirtölu). Við vorum með 11-12 stelpur í æfingahópnum allt árið hérna heima í Stykkishólmi og hefur það ekki gerst í mörg ár. Einnig voru tvær sem æfðu í Rvk., Rebekka og Berglind, ég vil nota tækifærið og þakka ÍR (Óla þjálfara) fyrir að gefa okkur tækifæri til þess að æfa í bænum. Rebekka og Berglind voru í góðu sambandi við okkur úr Rvk. og áttum við marga videófundi í vetur þar sem þær fylgdust vel með inn á facebook grúbbunni okkar þegar við sendum fundinn út beint.

Heilt yfir er ég sáttur við hvernig liðið var að virka á stórum köflum tímabilsins þó svo að sigrarnir hafi ekki alltaf verið að detta. Liðið er ungt og margar af stelpunum að stíga sín fyrstu skref með almennilegt hlutverk í leikjum. Að sjálfsögðu ætluðum við okkur fleiri sigra en því fór sem fór. Við áttum marga hörkuleiki við bestu lið landsins og spiluðum frábærlega á móti Skallagrím og Keflavík heima eftir áramót. En 6. sætið er staðreynd og þurfum við að taka því eins og það er. Við stefndum hærra það er á hreinu. 

Ég gerði saming í eitt ár þegar ég skrifaði undir og mun því ekki halda áfram með liðið á næsta keppnistímabili. Tíminn sem fer í þjálfun og undirbúning fyrir æfingar og leiki er gríðarlega mikill. Ég vil ekki fórna fleiri árum í það á meðan börnin mín eru svona ung. Ég ætla því að hlúa enn betur að fjölskyldunni minni og styrkja fleiri vináttubönd. Ég veit að fólk skilur það vel og það er vonandi í þessum „töluðum“ orðum farið að huga að næsta þjálfara liðsins. Ég tel okkur þurfa að horfa til framtíðar og byggja enn frekar upp í yngriflokka starfinu. Ég er mikill Snæfellingur og Hólmari og mun að sjálfsögðu hjálpa til á komandi árum í hvaða formi sem er. Ég hef mikla ástríðu fyrir körfubolta og þjálfun og það er aldrei að vita hvort ég snúi til baka eftir nokkur ár. 

Mig langar að þakka stjórn, leikmönnum, stuðningsfólki og fjölskyldunni minni fyrir frábært og lærdómsríkt tímabil. Ég mun líta til baka eftir nokkur ár og vera ánægður með starfið og reynsluna sem ég fékk á þessum tíma. Tímabilið var krefjandi eins og við öll vitum með mörgum áföllum. Við sem Snæfellingar komum sterkari út úr tímabilinu fyrir vikið og með enn meiri samheldni. Ég segi það hvar sem ég er að ég er stoltur Snæfellingur og finnst félagið eiga mikið í mér eins og ég á í því.

Kærar þakkir fyrir tímabilið,

Gunnlaugur Smárason

Snæfellingur