Leikmaður Snæfells og íslenska landsliðsins, Gunnhildur Gunnarsdóttir, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir 15 ára farsælan feril. Tilkynnir hún fylgjendum sínum á samskiptamiðlunum Instagram og Facebook fyrir stundu.

Ferill Gunnhildar með eindæmum sigursæll, þar sem hún fór fyrir uppeldisfélagi sínu í Snæfell sem vann Íslandsmeistaratitilinn tvö skipti í röð árin 2015 og 2016, en seinna árið unnu þær einnig bikarmeistaratitilinn og var hún í lok árs valin körfuboltakona ársins á Íslandi.

Gunnhildur lék alla tíð fyrir Snæfell fyrir utan fjögur tímabil, 2010-2014, þegar hún var með Haukum í Hafnarfirði. Í heildina vann Gunnhildur tvo Íslandsmeistaratitla (2015, 2016), tvo bikarmeistaratitla (2014, 2016), þrisvar meistari meistaranna (2014, 2015, 2016), einu sinni fyrirtækjabikarinn (2011) og í eitt skipti Íslandsmeistari í fyrstu deild (2008)

Þá hefur hún leikið 36 leiki fyrir íslenska landsliðið frá árinu 2012, þar sem að liðið hefur í fjögur skipti unnið silfur á Smáþjóðaleikunum (2013, 2015, 2017, 2019)

Karfan vill nýta þetta tækifæri og þakka Gunnhildi fyrir stórkostlega skemmtun í gegnum árin og óska henni til hamingju með hreint frábæran feril, sem og velfarnaðar í öllu því sem hún tekur sér fyrir í framtíðinni.

Tilkynningu Gunnhildar og Snæfells má sjá hér fyrir neðan: