NBA deildin og leikmannasamtök hennar eru þessa dagana að skoða hraðvirkan sýnatökubúnað sem gæti gefið þeim niðurstöður úr blóðrannsókn á 15 mínútum varðandi það hvort að leikmaður eða starfsmaður er sýktur af Covid-19.

Samkvæmt Baxter Holmes á ESPN væru slík próf mikilvægt fyrsta skref í áttina að því að spila aftur í náinni framtíð. Prófin sem um ræðir væru svipuð og þau er sykursjúkir nota til þess að mæla sig.

Örugg og fljótvirk sýnataka er lykillinn að því að fólk geti komist aftur í vinnuna, að íþróttir geti hafist aftur, sagði ónefndur forráðamaður liðs í deildinni. Bætti hann við. Það er sama hvaða starfi þú gegnir, eða í hvaða umhverfi það er, ef að þú átt í samskiptum við fólk, þá er mikilvægt að allir séu öruggir, íþróttir eru ekkert öðruvísi.

Þrátt fyrir að deildin sé komin af stað með að kanna slíka möguleika, þá eru einnig aðrir þættir sem verður að líta til. Samkvæmt Adam Silver, framkvæmdarstjóra deildarinnar, verða engar ákvarðanir teknar í apríl. Í samtali Ernie Johnson hjá ESPN sagði Silver að ekki væri enn víst hvort að deildarkeppnin yrði kláruð eða hvort það yrði beint farið í úrslitakeppnina. Sagði hann enn frekar að heilbrigði fólks væri í forgangi þessa stundina, en þó hefði deildin vilja til þess að vera tilbúin um leið og færi gæfist til þess að leggja sitt á vogarskálarnar við að koma efnahaginum aftur af stað og setja á stofn eðlilegt líf á nýjan leik.