Fyrir tæpu ári síðan ákvað Borgfirðingurinn Bjarni Guðmann Jónsson að ganga til liðs við Fort Hays State Tigers. Liðið leikur miðríkja hluta anarrar deildar bandaríska háskólaboltans.

Áður en að hann fór út lék Bjarni með uppeldisfélagi sínu í Skallagrím. Þar sem að hann skilaði 13 stigum, 5 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik í Dominos deildinni á síðasta tímabilinu áður en hann fór út. Þá hefur Bjarni einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands.

Karfan setti sig í samband við Bjarna og spurði hann aðeins út í þetta fyrsta ár hans í Fort Hays.

Hvernig fannst þér þetta fyrsta ár ganga hjá þér hjá Tigers?

“Fyrsta árið gekk bara nokkuð vel. Ég fékk kannski ekki að spila eins og ég vildi en það tekur smá tíma að aðlaga sig að öllu saman, bæði körfunni og skólanum. En mér leið aftur á móti mjög vel í Hays og get ekki kvartað yfir neinu”

Voru mikil viðbrigði að flytja úr Borgarnesi til Hays?

“Já, það er smá munur en ekki eins mikill og bjóst við. Þótt að Hays sé töluvert stærri en Borgarnes var nokkurnveginn sami smábæjarfýlingurinn yfir öllu. Campusinn var kannski líkari Borgarnesi í stærð, stutt að labba í íþróttahúsið og í skólann”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima, hver er helsti munurinn?

“Körfuboltinn er töluvert öðruvísi og það tók mig smá tíma að venjast honum. Það er allt miklu meira einstaklingsmiðað og minni liðsbolti finnst mér. Svo er íþróttahúsið náttúrlega laust allan daginn þannig við æfum oftar og lengur, allt annað en pakkfulla íþróttahúsið í Nesinu. Skora á Borgarbyggð að fara græja þetta!”

Er mikill munu á tímabilinu hér heima og úti í háskólaboltanum?

“Já, það er töluverður munur á þessu öllu saman. Það er miklu betur haldið utan um allt þarna úti, öll aðstaða í deildinni er betri en bestu hús á Íslandi. Undirbúningstímabilið er metnaðarfullt og við fáum leiki við stór og sterk lið eins og University of Kansas (KU). KU endaði árið sem besta háskólaliðið í D1 og þetta því geggjuð upplifun að spila við þá. Yfir tímabilið ferðumst við svo meira og nánast aðra hverja viku fórum við í 3-4 daga ferðalag”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði? Náðuð þið að klára skólann?

“Skólinn var og er ennþá í fullum gangi þannig ég er bara í fjarnámi núna hérna heima. Körfuboltatímabilið okkar var nýlega búið þannig við misstum þannig séð ekki af neinu nema bara offseason sem var nýbyrjað. Leiðinlegt líka að þurfa að fara heim og geta ekki nýtt þessa góðu aðstöðu þarna úti”

Nú varst þú að klára þitt fyrsta ár í skólanum og við gerum ráð fyrir að þú farir aftur út. Hver eru helstu markmiðin körfuboltalega fyrir annað tímabilið?

“Ég er trúlega með sömu markmið og flestir aðrir sem þið töluðuð við, aðallega að bæta mig í körfubolta og svo að komast í stærra hlutverk”