Fyrir tæpu ári síðan ákvað KR-ingurinn efnilegi Almar Orri Atlason að halda suður um haf og ganga til liðs við Stella Azzurra í Róm á Ítalíu. Almar ekki fyrsti íslenski leikmaðurinn sem fer til Stella, en Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson var á mála hjá akademíunni frá 16-18 ára aldurs áður en hann gekk til liðs við Marist í bandaríska háskólaboltanum 2015.

Almar er enn bara á 16. ári, en ásamt því að hafa leikið upp yngri flokka KR og nú með Stella Azzurra á Ítalíu, hefur hann einnig verið hluti af U15 og U16 landsliðshópum Íslands.

Hvernig fannst þér þetta árið ganga með Stella Azzurra?

“Mér fannst þetta ár ganga mjög vel. Mér tókst að festa mig í sessi í u16 ára liðinu sem er eitt af fimm sterkustu U16 liðum í Evrópu. Við spiluðum á móti mjög sterkum liðum m.a. Real Madrid, Bayern München, Valencia, Zalgiris og Kínverska u17 landsliðinu. Við töpuðum aðeins einum leik og það var á móti Real Madrid á Tenerife. Mér persónulega gekk mjög vel og náði í All Star liðið á einu móti. Ég fékk líka að prófa að æfa með Roseto Sharks nokkru sinnum, sem eru í næstefstu deild á Ítalíu”

Er mikill munur á lífinu í Róm og heima í Reykjavík?

“Bæði og. Róm er stór og gömul borg þar sem um 5 millijónir búa og endalaust af hlutum til þess að gera og stöðum til að skoða, s.s. Vatíkanið, Colosseum og Spænsku tröppurnar. Umferðin er svakaleg og endalaust of túristum. Hversdags lífið er samt ekkert ólíkt, maður vaknar, fer í skólann og á æfingar eins og heima”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima?

“Það er töluverður munur á körfuboltanum sem Stella spilar og boltanum hérna heima. Boltinn úti er miklu hraðari og nánast engar fastar stöður, heldur bara hlaupa á hitt liðið og boltinn hreyfður mjög hratt. Við pressuðum alltaf, allan völlinn, allan tímann og skilaði það sér í að flest okkar stig komu úr mjög hröðum sóknum. Æfingarnar eru allt öðru vísi þarna úti en heima, þær eru mun agaðri og svo mun fleiri. Ég æfði fjórum sinnum á dag, sex daga vikunnar, tvær styrktaræfingar og tvær körfuboltaæfingar”

Er mikill munu á tímabilinu hér heima og úti á Ítalíu?

“Tímabilið er aðeins öðru vísi í ítölsku deildinni en hérna heima og spilar Stella t.d. aðallega við lið frá Lazio héraðinu. Í mínum aldri er Stella með langbesta liðið og vinnur alla leiki með yfir 30 stiga mun. Þeir leggja því mjög litla áherslu á deildina og spilaði ég og flestir útlendingarnir ekkert í henni. Þeim mun meiri áhersla er lögð á að fara á sterk mót um alla Evrópu og spila við bestu liðin. Ég fór t.d. á mót á Tenerife, í Ungverjalandi, Barecelona og Aþenu”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði? Náðuð þið að klára tímabilið og skóla?

“Jú það voru ákveðin vonbrigði að ná ekki að klára tímabilið. Það voru nokkur spennandi mót eftir sem við ætluðum á og svo áttu ítölsku strákarnir úrslitakeppnina eftir. Skólinn minn er amerískur og er á netinu, þannig að það má segja að það sé eini skólinn sem breyttist ekkert við þennan faraldur. Það eru líka mikil vonbrigði að fá ekki að spila með mínum flokkum hjá KR fyrst ég var kominn heim, að sjá meistaraflokk KR taka þann 7. í röð og að búið sé að fella niður mótin sem U16 ára landsliðið átti að taka þátt í”

Nú kláraðir þú þetta ár úti á Ítalíu, er líklegt þú farir aftur út næsta haust? Hver eru helstu markmiðin körfuboltalega fyrir næsta tímabil?

“Ég er ekki að fara aftur til Stella og eins og staðan er núna er lang líklegast að ég verði heima næsta vetur, en það er ekki ákveðið hvar ég mun spila. Markmiðið fyrir næsta tímabil er að ná að komast í æfingahóp hjá meistaraflokki og vonandi ná einhverjum mínútum þar. Síðan er stefnan sett á Bandaríkin, kannski í High School en alla vega háskóla”