Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.

Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.

Næstur í röðinni er sérfræðingurinn og formaður samtaka íþróttafréttamanna Tómas Þór Þórðarson.

Hvernig er að vera án íþrótta útaf þessum aðstæðum?

“Fyrir mann eins og mig og eflaust óteljandi fleiri sem lifa og hrærast í þessum heimi er þetta bara skelfilegt. Tómleikinn er mikill án íþróttanna. Ekki bara starfa ég við íþróttir og hef gert núna í rúman áratug þá hef ég verið íþróttasjúkur síðan að ég var krakki og horft nánast á allt. Svo á móti þegar að maður er að vorkenna sjálfum sér að geta ekki fjallað um eða fylgst með íþróttum má maður ekki gleyma að það er fólk sem glímir við miklu meiri vanda út af þessari veiru þannig að maður verður að horfa á stóru myndina í þessu öllu saman”

Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá körfuboltahreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?

“Heilsa íþróttamanna, þjálfara, dómara, sjálfboðaliða og allra þeirra sem starfa við körfuboltann sem og allar íþróttir er það sem skiptir öllu máli. Ég held við getum verið nokkuð viss um að íþróttir eru ekki farnar úr lífi okkar að eilífu þrátt fyrir að við séum að upplifa erfiða tíma núna. Körfuboltahreyfingin verður að hafa það að leiðarljósi”

Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?

“Körfuboltinn býr við þann lúxus, ef svo má segja, að notast við úrslitakeppni til að krýna Íslandsmeistara þannig “minna mál” er að slaufa tímabilinu án þess að gera of mikið mál úr því hver verður Íslandsmeistari eins leiðinlegt og það er nú að segja og skrifa. Það væri hægt að krýna Stjörnuna deildarmeistara þó ég sé ekkert endilega alltof hrifinn af því en enga Íslandsmeistara á að krýna í þessum aðstæðum, að því mér finnst. Hvað verður með fall og hverjir koma upp er annað. Eitt lið er fallið en er sanngjarnt að Fjölnir verði fyrir því að falla ef tímabilið verður þannig séð gert ógilt? Það finnst mér tæpt. Ákvörðun KKÍ er ekki öfundsverð”

Fari svo að því verði frestað, sérðu fyrir þér að liðin verði klár til þess að klára mótið seinna, jafnvel í sumar?

“Það væri eflaust hægt að spila úrslitakeppnina, jafnvel með styttri útgáfu, í sumar en hvað þá með erlendu leikmennina sem breyta landslaginu svakalega? Ef tímabilinu verður slaufað held ég að það verði best að taka upp þráðinn í haust með nýju tímabili”

Að lokum, með hverju mælir Tómas í samkomubanninu?

“Ég hef átt í brasi með þessa fyrstu daga þannig er varla fær um að leiðbeina öðrum. Það er allavega vel rúmt um mann í ræktinni og svo er fínt að lesa sig til um íþróttir, bæði á vef og í bókum sem og að horfa á þær heimildamyndir sem maður á eftir. Svo má ESPN drífa sig að rusla út nýju Bulls-þáttunum. Það mun bjarga miklu”