Varla er fjallað um annað þessa dagana en COVID 19 kórónaveiruna og þau áhrif sem heimsfaraldur af hennar völdum hefur á samfélagið þessa dagana. Í dag má þó segja að ástandið hafi stigmagnast þegar heilbrigðisráðherra setti á samkomubann í landinu frá og með mánudeginum 15. mars, en frá þeim degi verða allar samkomur þar sem samankomnir eru 100 manns og fleiri bannaðar hér á landi.

Skiljanlega mun bannið hafa áhrif á mótahald KKÍ, og hefur sambandið nú tilkynnt að öllum leikjum í neðri deildum Íslandsmótsins (þ.e.a.s. 2. og 3. deild karla) og í yngri flokkum verði aflýst frá og með laugardeginum 14. mars. Engir leikir munu því fara fram í 2. og 3. deild karla sem og yngri flokkum karla og kvenna þar til annað verður tilkynnt af hálfu KKÍ. Áður hafði öllum fjölliðamótum á vegum KKÍ verið frestað út marsmánuð eða aflýst.

Stjórn KKÍ mun funda í fyrramálið og taka ákvörðun um framhald í öðrum deildum, þ.e.a.s. Domino’s deildunum og 1. deildum karla og kvenna, og ræða hugmyndir að mögulegum útfærslum á keppnistímabilum í þessum deildum.