Það var engin hætta á kóróna-smiti í Dalhúsum í kvöld enda fjölmargir metrar á milli manna í stúkunni. Heimamenn höfðu ekki að miklu að keppa og andstæðingarnir frá Kef City eru nánast límdir við annað sætið. Fjölnismenn sýndu þó heldur betur vilja í síðustu umferð með ótrúlegum sigri í Síkinu og Keflvíkingar vilja auðvitað halda vonum um fyrsta sætið og deildarmeistaratitil lifandi. Einnig höfðu gestirnir ástæðu til að svara fyrir óvænt og súrt tap í bikarkeppninni fyrr á tímabilinu í Dalhúsum.

Spádómskúlan: Kúlan heyrir sprengjuflugvélagný yfir Dalhúsum og Grafarvogspiltar hlaupa eins og trylltar hænur í skjól hver á fætur öðrum. Þetta merkir að Kef City mun byrja leikinn með flugeldasýningu og draga strax allan vilja úr heimamönnum. Lokatölur 82-105 í stórsigri gestanna.

Byrjunarlið:  

Fjölnir: Moses, Jere, Srdan, Róbert, Tommi

Keflavík: Milka, Deane, Hössi, Khalil, Lawson

Gangur leiksins

Kúlan hafði fullkomlega rétt fyrir sér að þessu sinni. Keflvíkingar voru búnir að troða boltanum ofan í körfuna hjá heimamönnum eftir 2 sekúndur og tóku öll völd á vellinum. Gestirnir pressuðu allan völlinn og duttu svo í svæðisvörn og ætluðu greinilega að reyna að sprengja sig frá föllnum og lítt peppuðum Fjölnismönnum. Reyndar var svæðisvörn gestanna alls ekki góð og heimamenn eltu gestina fyrstu mínúturnar. Hössi og Milka stóðu svo að smá spretti Keflvíkinga og Falur tók leikhlé í stöðunni 17-25 þegar 2 og hálf voru eftir af fyrsta leikhluta. Lítið breyttist við leikhléið og var staðan 24-31 eftir einn. 

Orri Hilmars kom sterkur inn af bekknum fyrir Fjölnismenn og minnkaði muninn í 4 stig með þristi og var þarna kominn með 8 stig. Flottur kappi rétt eins og Darri bró. Gestirnir svöruðu hins vegar strax og höfðu skipt yfir í maður á mann-vörn sem voru vondar fréttir fyrir heimamenn. Þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum var staðan 29-42 og Fjölnismenn virtust ekki hafa nein svör gegn vörn gestanna. Þegar rúmar 4 mínútur voru til hálfleiks tók Falur leikhlé í stöðunni 33-52 og allir í húsinu höfðu það vafalaust á tilfinningunni að leikurinn væri bara svo gott sem búinn! A.m.k. þótti kollega mínum í fjölmiðlastúkunni ástæða til að horfa á handboltaleik í tölvunni svona með öðru…sem hlýtur að vera algert neyðarúrræði. Hlutirnir löguðust ekki neitt hjá heimamönnum, Gústi pepp setti þrist og kom sínum mönnum 20 yfir. Fjölnismenn brugðu þá á það óráð að fara í svæði og 3 sekúndum síðar var Gústi búinn að setja annan í andlitið á þeim! Staðan var 40-62 í leikhléi.

Seinni hálfleikur var formsatriði. Piltarnir frá Sunny-Kef fóru aftur í svæðisvörn (2-3 eftir 3-2 í fyrri hálfleik ef einhverjum er ekki sama) og það gekk mikið betur eða virtist a.m.k. gera það. Fín æfing og munurinn var kominn í 52-85 eftir þrjá leikhluta. 

Klukkan í Dalhúsum vildi endilega hafa fjórða leikhluta aðeins 5 mínútur…sem hefði alveg verið nóg svo sem. Eftir langa 5 mínútna bið var hægt að klára formsatriðið. Fjórðungurinn var að mestu ruslafjórðungur sem er sjaldan fagnaðarefni. Miðað við það var leikhlutinn þó ágætur og af einhverjum ástæðum spilaði Lawson allan leikhlutann og var stórkostlegur. Einnig gladdi umtalaður Viktor Máni áhorfendur með tveimur fallegum þristum í röð og svo stolnum bolta og sniðskoti. Vel gert hjá pilti. Það kom þó ekki í veg fyrir risastóran sigur drengjanna úr Bítlabænum, lokatölur voru 73-118.

Menn leiksins

Callum Lawson setti 35 stig í leiknum, var 9-12 í skotum utan af velli og 11-12 í vítum! Leikmaður Partýbæjar sannarlega í Ham. Milka var bestur framan af og kom sínum mönnum á bragðið, setti 25 stig og tók 9 fráköst.

Hjá heimamönnum er aðeins ástæða til að minnast á Orra sem setti 13 stig af bekknum og Viktor Mána sem skoraði 10 stig.

Kjarninn

Fjölnismenn eru fallnir og hafa vafalaust mætt í þennan leik til þess að reyna að hafa gaman. Undirritaður er ekki svo viss um að því markmiði hafi verið náð. 

Keflvíkingar æfðu svæðisvörn í þessum leik og pressu allan völlinn í fyrsta leikhuta. Ekki er gott að segja hvort það skili einhverju fyrir framhaldið en Lawson er a.m.k. kominn í gang! Borche hefur skrifað í glósubókina með stórum stöfum að þessi gaur má ekki fá að skjóta, alls ekki! Það er einkum stórleikur hans sem stendur upp úr og spennandi að sjá hve mikið hann mun gefa liðinu í úrslitakeppninni.

Umfjöllun: Kári Viðarsson