Hamarskonur mætti í heimsókn í Hertz-hellinn í dag, það var mikil ró í upphitun og bæði lið virtust einbeittar fyrir komandi verkefni. Það voru þær Hrafnhildur, Arndís, Nína Jenný, Aníka og Sólrún sem byrjuðu leikinn hjá ÍR og þær Perla María, Álfhildur, Rannveig, Jenný og Íris sem byrjuðu Hamars megin. Fyrstu mínútur leiksins voru ÍR-ingar við stýrið, spiluðu vel saman ásamt því að spila hörkuvörn. Þær náðu samt ekki að hrista Hamar langt frá sér, Rannveig setti fimm stig á mínútu, Jenný varði svo þriggja stiga skot og Álfhildur setti lay-up sem varð til þess að ÍR tóku leikhlé. ÍR leiddu samt sem áður leikinn en víst var að Óli þurfti að skerpa línurnar fyrir sínum konum. Ekki er annað hægt að segja en að leikhléið hefði skilað sínu vegna þess að ÍR skoruðu níu stig í röð gegn engu hjá Hamri, urðu það lokin á leikhlutanum og staðan því 19:9 eftir fyrsta leikhlutann.

Hamar átti fumkvæðið í öðrum leikhluta og skoruðu fyrstu tvö stigin, en ÍR-ingar neituðu að afhenta stýrið og héldu sinni keyrslu áfram. Flæðið í sóknarleik þeirra var frábært, þær áttu auðvelt með að finna opinn mann í sókninni og leið að körfunni. Hamarskonur voru því miður ekki með svör í vörninni gegn sterkum sóknarleik ÍR. Mikil barátta var í leiknum í dag, hvað eftir annað voru leikmenn að fleygja sér óhræddir í gólfið á eftir boltanum, einnig voru leikmenn að stela mikið af boltanum og var Jenný þar áberandi. Hún las leikinn vel og stal þremur boltum í öðrum leikhluta (sex stolna bolta í heildina) sem endaði allt með körfum eða tveimur vítaskotum sem var mikilvægt fyrir Hamarskonur. Dugði það ekki til að kveikja undir sínum liðsfélögum og voru Hamarskonur farnar að síga verulega aftur úr, endaði leikhlutinn ekki betur en svo að brotið var á Sigurbjörgu í þriggja stiga skoti. Sigurbjörg setti öll þrjú vítin niður, voru það loka stig leikhlutans og staðan þá orðin 44:26.

Brött var brekkan sem beið Hamarskvenna eftir hálfleikinn, hefði verið gott að sjá miklu meiri baráttu í vörninni hjá Hamar en þær voru of oft einu ef ekki tveimur skrefum á eftir ÍR. Liðin skiptust á að skora á upphafs mínútum, en um miðjan leikhlutann fóru ÍR-ingar að herða á vörninni og vann sóknin þeirra í takt við það. Hamar reyndi að skipta yfir í svæði um tíma, en það reyndist þeim ekki vel til lengdar og voru ÍR-ingar duglega að láta boltann ganga þar til að opna skotið fannst. Leikhlutinn endaði á stórum þrist frá Bylgju og með því var staðan orðin 60:35.

Það getur allt gerst í körfubolta og ekki hægt að segja að leikurinn væri búinn en það var orðið nokkuð ljóst hver úrslitin myndu vera. ÍR-ingar héldu yfirvegun í vörninni, spiluðu hana þétt og erfitt var fyrir Hamar að komast að körfunni. Það var ekki fyrr en eftir rúmlega þrjár mínútur að fyrstu stig Hamars komu. Flæðið, samheildin og óeigingirnin í sóknarleik heimakvenna varð til þess að ekki leið mikill tími milli stiga hjá ÍR. Þetta var sannkallaður liðssigur, allir leikmenn ÍR sem komu inn á skoruðu allavega tvö stig. Leikurinn endaði 73:47 fyrir ÍR sem átti sigurinn skilið eftir mikla baráttu og hörku.

Vert er að segja frá því að Sigríður Antonsdóttir spilaði sinn síðast leik fyrir ÍR (í bili, skrifar undirrituð), Sigríður hefur verið mikilvægur leikmaður fyrir ÍR-inga síðan að liðið var endurvakið. Það fór ekki alltaf mikið fyrir henni á vellinum ef litið er í tölfræðina, en varnarlega stóð hún alltaf fyrir sínu. Hún hefur í þessi þrjú tímabil verið mikill baráttujaxl, frábær liðsfélagi og fyrirmynd. Sigríður er alltaf hvetjandi hvort sem hún er innan eða utan vallar, hefur hún sýnt það og sannað að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi. Hún á mikið hrós skilið fyrir sína frammistöðu með liðinu, enda frábær karakter að eiga í liði. Það var algjör unun að fá að fylgjast með henni spila og vonum við að sjá hana aftur á vellinum einn daginn.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Regína Ösp