Tindastóll tók á móti Fjölni í Dominos deild karla í körfuknattleik í kvöld. Flestir reiknuðu með auðveldum sigri heimamanna á móti föllnu liði Fjölnis en sú varð aldeilis ekki raunin.

Leikurinn var frekar afslappaður í byrjun en fljótlega sást að heimamenn voru ekki alveg rétt innstilltir á leikinn. Pétur Rúnar og Jaka Brodnik sáu þó til þess að Tindastóll leiddi framanaf en þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar hvarf hittni heimamanna og Fjölnir gekk á lagið og náðu 9-18 forystu á tæpum 2 mínútum. Baldur tók leikhlé og Tindastólsmenn náðu smá spretti til loka leikhlutans, staðan 18-21 að honum loknum. Hittni heimamanna batnaði lítið sem ekkert í öðrum leikhluta en á móti kom að lítið gekk hjá gestunum líka. Pétur Rúnar og Jaka héldu áfram að halda heimamönnum inni í leiknum en aðrir leikmenn virtust vart vera með meðvitund sóknarlega. Staðan 36-37 í hálfleik og menn í Síkinu höfðu á orði að leikurinn minnti mjög á leikinn gegn Val sem Tindastóll tapaði naumlega, enginn andi í liðinu og lítið líf hjá áhorfendum.

Róbert byrjaði seinni hálfleikinn á þristi og enn var það hlutskipti heimamanna að elta gestina og það fór augljóslega í skapið á þeim. Hittni heimamanna hélt áfram að valda vonbrigðum, hvort sem var utan þriggja stiga línunnar eða innan teigs. Þá réðu þeir illa við Viktor Moses undir körfunni. Fjölnir hélt 3-5 stiga forystu fyrstu 3 mínúturnar og bættu svo aðeins í þegar þeir fundu að mótspyrnan var ekki mikil og skyndilega var staðan orðin 45-60 eftir 13-0 kafla gestanna og útlitið svart hjá heimamönnum. Síðustu 3 mínúturnar í 3. leikhluta voru þó eign heimamanna sem náðu 14-3 kafla og staðan 59-63 fyrir lokaátökin.

Þessi kafli dugði þó ekki til að kveikja í heimamönnum sem héldu áfram að hitta skelfilega og hleypa gestunum í sóknarfráköst og um miðjan lokaleikhlutann höfðu gestirnir 63-70 forystu. Heimamenn jöfnuðu leikinn í 70-70 með ágætum kafla en þá komst Moses að körfunni og hélt gestunum fyrir framan með körfu og víti að auki. Stojanovic átti svo næstu 3 stig og forysta gestanna 71-76 þegar 40 sekúndur voru eftir. Þessar 40 sekúndur voru óaðfinnanlega útfærðar hjá Baldri og heimamönnum sem náðu að jafna leikinn í 80-80 þegar 9 sekúndur lifðu leiks og menn farnir að huga að framlengingu í Síkinu. Sú varð þó ekki raunin þar sem Viðar brýtur af sér á óskiljanlegan hátt þegar um sekúnda var eftir og Róbert innsiglaði sigur gestanna á vítalínunni, dugði að setja eitt skot niður og brenndi viljandi af því seinna, vitandi að enginn tími var eftir fyrir Tindastólsmenn. Það væri þó ósanngjarnt að segja að leikurinn hafi tapast á þessu því satt best að segja áttu heimamenn ekki skilið annað en tap eftir frammistöðu kvöldsins.

Jaka Brodnik (24 stig, 8 fráköst) og Pétur Rúnar (24 stig og 6 stoðsendingar) áttu ágætis leik hjá Tindastól en aðrir voru hreint afleitir, sérstaklega sóknarlega. Áberandi slakir voru atvinnumennirnir Perkovic, Geiger og Bilic sem hittu samtals úr 7 skotum af 29 auk tapaðra bolta. Viktor Moses var besti maður vallarins með tröllatvennu, 23 stig og 15 fráköst og Stojanovic kom skammt undan með 23 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar auk þess sem hann veiddi 7 villur á heimamenn sem réðu lítið við hann.

Svo virðist sem frí eða landsleikjahlé fari ekki vel í Tindastólsliðið sem einfaldlega mætti ekki tilbúið til leiks gegn liði sem er þegar fallið úr deildinni. Hvort sem um vanmat er að ræða eða annað þá er það ærið verkefni að laga hugarfar liðsins, sérstaklega seinni hluta tímabilsins.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna