Haukar tóku á móti Skallagrím í seinasta leik liðanna í deildarkeppninni í dag í Ólafssals á Ásvöllum í Hafnarfirði. Fyrr í vikunni hafði stjórn Hauka rekið Ólöf Helgu Pálsdóttur, þjálfara kvennaliðsins, og Bjarni Magnússon var tekinn við um óákveðinn tíma.

Leikurinn var nokkuð stór þar sem að Skallagrímur gat sett Hauka niður fyrir sig nokkuð örugglega með því að vinna leikinn. Haukar þurftu á stigunum að halda til að eiga ennþá von í baráttu um úrslitakeppnissæti. Skallagrímur fékk gott framlag frá leikmönnum sínum og unnu leikinn 76-69.

Liðin voru í upphafi að skiptast á stigum og ekki alveg að passa nógu vel upp á boltann. Skallagrímur var þó aðeins beittari og höfðu nokkurra stiga forystu eftir fyrsta leikhluta.

Skallagrímur hélt áfram að hafa tögl og haldir lengi vel í leiknum en gat aldrei almennilega slitið sig frá Haukum. Keira Robinson, bandarískur leikmaður Skallagríms, stjórnaði liði sínu eins og herforingi og Emilie Hesseldal, miðherji Borgnesinga, gerði Lovísu Björtu lífið leitt. Haukar misstu Skallagrím þó ekki lengra frá sér og í hálfleik var enn bara fjögurra stiga munur á liðunum, 29-33.

Haukar voru enn í vandræðum með að hemja gestina í byrjun seinni hálfleiks en undir lok þriðja leikhluta breyttu þeir um varnarafbrigði og prufuðu svæðisvörn. Það dugði til að hrista aðeins upp í gestunum og Haukar minnkuðu muninn í fjögur stig. Guðrún Ósk tók þá leikhlé sem skilaði sér í þriggja stiga körfu og Skallagrímur fór inn í lokafjórðunginn með sjö stiga forskot.

Haukastelpur voru ekki af baki dottnar og náðu fyrstu forystunni sinni síðan í fyrsta leikhluta. Þá tóku Skallagrímskonur sig til og hlóðu í átta stiga áhlaup. Heimastúlkur virtust missa kjarkinn aðeins og nokkrar dýrmætar sóknir skiluðu litlu, hvort sem það var með töpuðum bolta eða illa ráðnu skoti.

Skallagrímur hleypti Haukum aftur nálægt sér í lok leiksins en Haukar gátu ekki stigið skrefið til fulls og stolið sigrinum. Gestirnir fóru því frá leiknum með sjö stiga sigur, 76-69.

Lykillinn

Keira Robinson var lykillinn að sigri Skallagríms í kvöld með 26 stig, 10 fráköst, 6 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Hún spilaði allar fjörtíu mínútur leiksins og stýrði liðinu sínu mjög vel.

Sú sem stóð þó upp úr var Mathilde Poulsen, sú lágvaxnari af dönskum leikmönnum Skallagríms. Mathilde setti fimm þrista í tíu tilraunum (50% nýting) og lauk leik með 19 stig og fjórar stoðsendingar.

Hjá Haukum var Randi Brown með 31 stig og 11 fráköst. Sú sem kom á óvart hjá Haukum að þessu sinni var hins vegar Rósa Björk Pétursdóttir. Rósa skoraði 16 stig, tók 6 fráköst og var næst framlagshæst í sínu liði á eftir Randi.

Vendipunkturinn

Leikurinn var endanlega búinn eftir að Skallagrímur braut áhlaup Hauka í byrjun fjórða leikhluta á bak aftur. Haukastelpur tóku nokkrar slæmar ákvarðanir og Randi Brown fór að senda boltann minna en áður og Skallagrímur gat aukið forystuna í 10 stig.

Haukar reyndu að klóra í bakkann á lokametrunum en munurinn var of mikill og því fór sem fór.

Kjarninn

Skallagrímur er núna í góðri stöðu til að fara í úrslitakeppnina og gætu jafnvel náð þriðja sætinu ef að Keflavík hikstar eitthvað í seinustu leikjum deildarkeppninnar. Keflavík og Skallagrímur eru með jafn mörg stig í deildinni en Keflavík á leik til góða.

Haukar verða núna að ljúka deildarkeppninni með fleiri sigra en Keflavík eða Skallagrímur því að þær munu tapa innbyrðis baráttunni gegn báðum liðum. Haukar hafa fimm leiki til að snúa genginu við og svigrúmið til mistaka minnkar óðum.

Viðtöl eftir leik

Mathilde var sátt með sigurinn en sagði að þetta væri ekki búið
Rósa Björk vill eiga fleiri svona leiki og sagði að Haukar væru ekki af baki dottnir.
Bjarni Magnússon bjóst ekki við að þurfa leiða liðið í þessum leik.
Guðrún Ósk segir að Skallagrímur megi ekki misstíga sig núna.