Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.

Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.

Næst í röðinni er Sauðkrækingurinn Sigríður Inga Viggósdóttir, fyrrum starfsmaður KKÍ.

Hvernig er að vera án körfubolta útaf þessum aðstæðum?

“Þetta eru náttúrlega mjög sérstakir tímar. Verð að viðurkenna að það er hálf tómlegt að geta ekki horft á körfubolta eða aðrar íþróttir. Hugur minn er hjá íþróttafréttamönnum næstu vikurnar. Vaktirnar hjá þeim verða eitthvað örlítið lengi að líða gæti ég trúað”

Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá hreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?

“Fyrst og fremst finnst mér mikilvægast að við förum eftir fyrirmælum þeirra sérfræðinga sem stýra aðgerðum hér á landi. Það á ekki að taka neina sénsa með heilsu fólks hún er það mikilvægasta sem við eigum”

Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?

“Finnst eðlilegt að þau lið sem eru efst í deildunum núna verði deildameistarar, þau eru búin að vinna sér inn fyrir því með góðum árangri í vetur. Mér finnst að það eigi ekki að krýna neinn Íslandsmeistara þetta árið”


“Ég hef ekki lausnina á því hvaða lið ættu að fara upp og niður milli deilda”

“Væri samt til í að sjá Viðar Hafsteinsson berjast fyrir sæti sínu í Domino’s deildinni með því að fara í tennisleik við annaðhvort Fal eða Lalla. Sá leikur færi að vísu ekki vel fyrir Hr. Egilsstaði þar sem hann er með skelfilega bakhönd”

Fari svo að því verði frestað, sérðu fyrir þér að liðin verði klár til þess að klára mótið seinna, jafnvel í sumar?

“Að sjálfsögðu geta liðin verið í standi ef til þess kemur að mótinu verði frestað. Við vitum hinsvegar ekkert hvað gerist eftir fjórar vikur. Verður samkomubannið þá lengt um x vikur? Finnst of mikil óvissa núna til þess að fresta mótinu og tel ég því fyrir bestu að aflýsa því”

Að lokum, með hverju mælir Sigríður Inga í samkomubanninu?

“Fyrst og fremst að tapa ekki gleðinni, brosa og vera jákvæð/ur. Gerir lífið svo mun auðveldara. Hvet svo fólk til þess að fara út í körfubolta, æfa sig heima með bolta, kíkja á Driplið hjá KKÍ, horfa á gamla leiki og grúska á youtube”

“Svo verð ég að minna vin minn Viðar Hafsteinsson á að æfa sig í tennis”