Tindastóll tók á móti ÍR í Síkinu á Sauðárkróki í Dominos deild karla í körfuknattleik í kvöld.  Áhorfendur voru með færra móti í kvöld, líklega vegna ástandsins í þjóðfélaginu af völdum Covid-19 en þeir sem mættu fengu ágætis skemmtun fyrir sinn aðgangseyri.

Tindastóll leiddi mestallan fyrsta leikhluta en Colin Pryor og síðan Roberto Kovac, héldu gestunum inni í leiknum með magnaðri hittni.  Pryor er með gott mid-range skot og Kovac var funheitur utan þriggja stiga línunnar.  Þristur frá Axel sá til þess að heimamenn leiddu með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta 28-24.  Heimamenn hertu heldur takið í varnarleiknum í öðrum leikhluta og Viðar og Hannes náðu að mestu að kæla Kovac niður auk þess sem fastur varnarleikur á Boyanov skilaði góðum árangri.  Stólar héldu áfram að spila ágætlega sóknarlega og boltinn gekk vel á milli manna og skilaði skotum sem oftar en ekki fóru niður. Staðan 56-41 í hálfleik og heimamenn virtust með algera stjórn á leiknum.

Þrátt fyrir góða stöðu í hálfleik voru áhorfendur í Síkinu ekki öruggir með sig og sitt lið enda hafði þriðji leikhluti oft verið erfiður, ekki síst þegar liðið hefur forystu í hálfleik.  Geiger fór langt með að róa taugar heimamanna með góðum þrist í upphafi seinni hálfleiks og leikurinn var nokkurnveginn í járnum allan leikhlutann.  Gestirnir náðu að herða talsvert varnarleikinn eftir að hafa fengið á sig 56 stig í fyrri hálfleik og það fór svo að þeir unnu leikhlutann en þó með aðeins einu stigi. Heimamenn voru að taka verri ákvarðanir í sínum sóknarleik sem þýddu tapaða bolta en sem betur fer fyrir þá var sóknarleikur gestanna ekki mikið betri. Danero fór að lauma niður þristum og gestirnir voru aldrei á þeim buxunum að gefast upp enda ekki þekktir fyrir það. Staðan 73-59 fyrir lokaátökin, forysta sem virtist þægileg en gat horfið fljótt ef skyttur gestanna myndu detta í stuð eins og í fyrsta leikhluta.

Fyrirliðinn Helgi Rafn gaf tóninn í upphafi fjórða leikhluta með frábærri vörn, varði skot frá Pryor og Boyanov sem ætluðu að vaða yfir tröllið en lentu á vegg.  Ekki var skorað fyrr en 2:30 voru liðnar af leikhlutanum og þá var það Boyanov sem minnkaði muninn í 73-61.  Bilic svaraði með 8 stigum og þó Kovac hafi laumað einum þrist inn á milli tók Borche leikhlé enda forysta heimamanna komin í 17 stig.  Lítið gekk hjá gestunum eftir leikhléið og skömmu seinna kom Jaka Brodnik forystunni í 23 stig og leik lokið þó enn væru rúmar 3 mínútur eftir.  Á síðustu mínútu leiksins hófst fallegasta sókn hans sem hófst með því að Friðrik stelur boltanum og setur svo þrist eftir að boltinn hafði gengið hratt á milli Tindastólsmanna og gersamlega rústað vörn gestanna.  Niðurstaðan varð svo sterkur 23 stiga sigur heimamanna 99-76

Allt lið Tindastóls var að spila mjög vel í leiknum, sjálfstraustið og hungrið var til staðar og það skilaði sér í ágætri hittni og góðum varnarleik.  Sinisa Bilic er að ná sér á strik eftir smá lægð og skilaði 25 stigum, Pétur Rúnar var með 11 stig og 9 stoðsendingar og lék vel í vörninni.  Geiger skilaði 18 stigum með 6 þristum og Axel hitti úr 4 slíkum í 5 tilraunum.  Þá er rétt að geta fyrirliðans Helga Rafns sem skoraði ekki nema 2 stig en reif niður 12 fráköst og varði 2 skot.  Hjá gestunum voru það Kovac, Pryor og Danero sem voru atkvæðamestir.  Boyanov skilaði 15 stigum en var þó ekki að setja niður mikið af contestuðum skotum enda vörn heimamanna þétt.

Samkvæmt planinu er næsti leikur Tindastólsmanna gegn Grindvíkingum í Grindavík en sjáum til hvað náttúruöflin og veiran gera í því.

Mynd: Boyanov sækir að körfunni, Helgi Rafn til varnar

Viðtal eftir leik:

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Hjalti Árna