NBA deildin og FIBA hafa bæði aflýst leikjum sínum um ótilgreindan tíma vegna Covid-19 veirunnar sem skilgreind hefur verið sem heimsfaraldur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni.

Fréttirnar um NBA deildina komu í nótt og eru í ljósi þess að leikmaður Utah Jazz, stjörnuleikmaðurinn og varnarmaður ársins á síðasta tímabili, Rudy Gobert greindist með veiruna.

Deildin hafði áður fundað um viðbrögð við veirunni, þar sem að niðurstaðan varð að leikirnir færu áfram fram, en án áhorfenda. Nú þykir líklegt að eigendur liðanna muni funda á nýjan leik og skila af sér niðurstöðu sem útlistar nákvæmlega hvað þetta mun þýða fyrir tímabilið.

Þá hefur FIBA einnig frestað öllum leikjum í sínum keppnum. Samkvæmt fréttatilkynningu mun sú frestun hefjast frá og með morgundeginum, en litlar aðrar upplýsingar hafa verið birtar um það annað en að það sé einnig vegna Covid-19 heimsfaraldursins.