Tveir leikir fara fram í Domino’s deild karla í kvöld, föstudaginn 6. mars.

Í Höllinni á Akureyri fer fram sannkallaður sex stiga slagur í fallbaráttu deildarinnar, þegar Þórsarar taka á móti Val. Fyrir leik sitja Þórsarar í fallsæti með 10 stig, en Valsarar sitja sæti ofar með 12 stig. Með sigri skjóta Norðanmenn hins vegar Val niður í fallsæti fyrir lokaumferðir deildarinnar vegna stöðu í innbyrðisviðureignum félaganna. Leikurinn hefst klukkan 18:30.

Ekki síðri leikur fer fram í DHL-höllinni síðar í kvöld, þegar sexfaldir Íslandsmeistarar KR taka á móti bikarmeisturum og toppliði Stjörnunnar. Stjörnumenn geta með sigri treyst stöðu sína á toppi deildarinnar, en KR-ingar eru í harðri baráttu um heimavallarétt í úrslitakeppninni. Líkt og fjallað var um í gær verður Brynjar Þór Björnsson ekki með KR-ingum vegna Covid-19 kórónaveirunnar. Leikurinn í DHL-höllinni hefst klukkan 20:15.

Þá eru þrír leikir á dagskrá í 1. deild karla, sem hefjast allir klukkan 19:15. Í Forsetahöllinni á Álftanesi taka heimamenn á móti Breiðabliki, Vestramenn taka á móti Hornfirðingum í Sindra á Ísafirði og það er slagur um Suðurlandsundirlendið í Hveragerði þegar Hamarsmenn taka á móti Selfossi.