Sexfaldir Íslandsmeistarar KR tóku í kvöld á móti bikarmeisturum Stjörnunnar í tuttugustu umferð Domino’s deildar karla. Stjörnumenn, sem sitja á toppi deildarinnar, unnu fyrri leik liðanna í Mathús Garðabæjar höllinni með 43 stigum, 110-67, og gátu með sigri í kvöld svo gott sem tryggt sér deildarmeistaratitilinn annað árið í röð. KR-ingar eru hins vegar í bullandi baráttu um heimavallarrétt í úrslitakeppni deildarinnar.

Ljóst var frá upphafi að leikur kvöldsins yrði jafnari en fyrri leikur liðanna. Stjörnumenn voru örlítið beittari í fyrsta leikhluta og leiddu með þremur stigum að honum loknum, 22-25. Mikið jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og þegar fyrri hálfleikur var úti höfðu liðin skipst 11 sinnum um forystu, og staðan í hálfleik 39-38 heimamönnum í vil.

KR náði betri tökum á leiknum í þriðja leikhluta og upphafi þess fjórða, og náðu stærstu forystu leiksins í upphafi lolafjórðungsins, þegar þeir komust átta stigum yfir 62-54. Stjörnumenn bitu hins vegar í skjaldarrendur og jöfnuðu fljótt í 67-67, þegar um fimm mínútur voru eftir. Nær komust þeir hins vegar ekki. KR spilaði síðustu mínúturnar af mikilli yfirvegun og lönduðu loks tveggja stiga sigri, 79-77 gegn toppliði deildarinnar.

Af hverju vann KR?

KR-ingar unnu leikinn vegna þess að þeir spiluðu betur en gestirnir, sem voru langt frá sínu besta, að minnsta kosti í sóknarleiknum. Undir lokin þegar leikurinn var sem jafnastur voru það síðan heimamenn sem náðu að setja niður mikilvæg skot, á meðan gestirnir gerðu oft og tíðum klaufaleg mistök þegar þeir gátu komist yfir eða jafnað.

Bestur

Michael Craion bar af í liði KR í kvöld, og áttu gestirnir erfitt með að stoppa hann. Craion lauk leik með 25 stig og 9 fráköst.

Framhaldið

Stjörnumenn leika næst gegn Haukum fimmtudaginn 12. mars í Garðabæ, en á sama tíma spila KR-ingar við Val í Origo höllinni.