Reykjavíkurstórveldin Valur og KR mættust í Origo höllinni í 21.umferð Dominos deildarinnar í kvöld. Um lítið var að keppa fyrir Val í þessum leik, þeir sigla lygnan sjó í 10.sæti deildarinnar og draumnum um úrslitakeppni lokið sem og martöðinni um fall. KR-ingar voru aftur á móti í bullandi baráttu við Tindastól um þriðja sætið í deildarkeppninni. 

Í upphafi leiks mátti sjá mikið andleysi í báðum liðum og maður fékk það á tilfinninguna að leikmenn vildu helst rumpa þessum leik af sem fyrst og fara svo beint aftur heim undir teppi í sóttkví. KR-ingar voru þó alltaf skrefinu á undan með Matthías Orra fremstan í flokki í byrjun leiks. Staðan eftir fyrsta leikhluta 17-22. 

Í öðrum leikhluta reyndu Pavel og PJ hvað sem þeir gátu til þess að saxa á forskot KR-inga en liðsfélagar þeirra fylgdu ekki með. Naor Sharabani gerði lítið annað en að klikka á skotum og tapa boltum á meðan Austin Bracey lét eldri borgarana Helga Magg og Jakob Sig fara illa með sig í vörninni trekk í trekk og gerði nákvæmlega ekkert sóknarlega. Liðin skoruðu þó bæði 21 stig í öðrum leikhluta og staðan eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik 38-43

Bræðurnir Jakob og Matthías fengu sér greinilega báðir Nocco í hálfleik því þeir mættu öflugir til leiks í seinni hálfleik og settu tóninn fyrir KR-inga með nokkrum laglegum körfum.Vesturbæingar komu leiknum fljótlega uppí 10 stig en PJ hélt áfram að vera frábær í liði Vals og hélt þeim inní leiknum auk þess sem Frank Booker vaknaði í stutta stund í liði Vals og setti niður tvær þriggja stiga körfur. KR-ingar svöruðu þó alltaf þegar Valsmenn hótuðu því að jafna leikinn, dreifðu körfunum bróðurlega á milli sín og fóru inn í fjórða leikhluta með þægilega forystu 59-68. 

Fjórði leikhluti þróaðist líkt og sá þriðji. Valsmenn voru duglegir að koma í leiknum niður í 4-6 stiga mun en þegar kom að því að gera þetta að alvöru leik þá gátu Valsmenn ómögulega skorað og KR-ingar gengu á lagið og komu þessu aftur í 3-4 sókna mun. Leikurinn fjaraði svo út í lokin og endaði með 9 stiga sigri KR-inga, 81-90.

Afhverju vann KR?

KR-ingar voru alltaf skrefinu á undan og áttu mjög auðvelt með að stoppa Valsmenn eða að ná í stig þegar á þurfti. Á meðan allir leikmenn KR voru mættir til leiks voru Naor Sharabani og Austin Bracey hvergi sjáanlegir í liði Vals. Bracey leit oft illa út í vörninni og tók bara eitt skot í leiknum. Sharabani náði aðeins að laga stattið sitt í fjórða leikhluta en var mjög lélegur fram að því og tók furðulegar ákvarðanir þegar Valsmenn voru í stöðu til að koma sér inní leikinn.

Hverjir stóðu uppúr?

Í liði KR voru eiginlega allir jafngóðir. Jakob var mjög flottur með 22 stig og var að skjóta boltanum vel. Matti og Craion skiluðu sínu með 17 stig hvor.og svo lögðu allir hinir eitthvað á vogarskálarnar. Í liði Vals var PJ Alawoya langbestur með 31 stig og 12 fráköst.

Framhaldið

Valsmenn geta farið að hugsa um næsta tímabil, eiga eftir tilgangslausan leik gegn Haukum í lokaumferðinni á meðan KR-ingar fá Þór frá Akureyri í heimsókn.  

Umfjöllun: Tómas Steindórsson