Keflvíkingar tóku á móti Haukum í 19.umferð Dominos deildarinnar í kvöld. Það var mikill andi í upphitun hjá Keflvíkingum enda Valur Orri Valsson snúinn aftur eftir fjögur ár í Bandaríkjunum. Deane Williams setti tóninn fyrir Keflvíkinga í fyrstu sókn með því að blokka þriggja stiga tilraun Gerald Robinson og troða síðan boltanum með krafti hinum megin. Það gekk í raunni ekkert upp hjá Hafnfirðingum fyrr en Kristinn Marínósson kom inná og lagaði örlítið stöðuna og var staðan í lok 1. Leikhluta 23-15

Annar leikhluti byrjaði og það gerðist bókstaflega ekkert markvert fyrstu fimm mínúturnar, annað en að liðin skiptust á að tapa boltanum og skjóta múrsteinum. Fyrsta karfan utan að velli kom þegar 4:41 var eftir af öðrum leikhluta þegar Hörður Axel skoraði þriggja stiga körfu. Keflvíkingar voru yfir 35-21 þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleik en með heimskulegum villum og töpuðum boltum hjá Keflavík tókst Hafnfirðingum að skora síðustu 10 stig leiksins og munurinn ekki nema 4 stig í hálfleik, 35-31. 

Í byrjun seinni hálfleiks héldu liðin áfram að skjóta illa en með góðu áhlaupi frá Kára Jónssyni náðu Haukar að komast yfir í fyrsta skipti, 47-48. Þá skipti Hjalti þjálfari Val Orra Valssyni í fyrsta skipti inná við mikinn fögnuð Keflvíkinga. Gummi Jóns fílaði greinilega þessi læti í stúkunni, skoraði fimm stig í röð og staðan í lok þriðja leikhluta 52-50 Keflvíkingum í hag. 

Í upphafi 4. leikhluta var nánast jafnt á öllum tölum og skiptust liðin á að leiða leikinn. Þegar um 5 mínútur voru eftir voru Haukar yfir 62-65 en þá kom svipaður kafli hjá Haukum og hjá Keflvíkingum í fyrsta leikhluta, þeir fóru að brjóta heimskulega og gáfu Keflvíkingum auðveld stig á vítalínunni. Keflvíkingar komust yfir á ný og Domynikas Milka sá til þess að þeir myndu ekki missa niður forskotið í lokin og sigldi þessu heim fyrir þá. Lokatölur 80-69

Af hverju vann Keflavík?

Þrátt fyrir að Haukar hafi verið inní leiknum langt fram í fjórða leikhluta hafði maður það aldrei á tilfinningunni að Keflvíkingar væru að fara að tapa þessum leik. Vörnin hjá þeim hélt nokkuð vel allan tímann og þeir eru með fleiri góða leikmenn en Haukarnir og það sýndi sig í lokin þegar liðin þurftu stig á töfluna. Flenard Whitfield spilaði allar 40 mínúturnar í liði Hauka og var orðinn örlítið of þreyttur til að draga Haukaliðið að landi. 

Hverjir stóðu uppúr?

Deane Williams var langbesti maður vallarins í dag, skoraði 22 stig og tók 10 fráköst og var flottur í vörninni. Hörður Axel spilaði nokkurnveginn á pari en Milka og Khalil Ullal hafa verið betri. Milka skoraði þó þegar mest á reyndi fyrir Keflavík og Ullal var nokkuð drjúgur á vítalínunni í lokin. Whitfield og Kári drógu vagninn sóknarlega fyrir Haukaliðið en þeir voru einu leikmenn liðsins sem komust yfir 10 stig í leiknum, sem er eki nóg ef þú vilt vinna Keflavík í Keflavík. 

Framhaldið

Í næsta leik fá Haukar Njarðvíkinga í heimsókn í mikilvægum leik uppá heimavallarrétt í úrslitakeppni á meðan Keflvíkingar heimsækja Fjölni í Dalhús þar sem þeir vilja líklega ólmir hefna fyrir tapið í 8 liða úrslitum bikarsins. 

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Tómas Steindórsson