Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.
Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.
Næstur í röðinni er Jón Björn Ólafsson, fyrrum stofnanda og ritstjóra Körfunnar.
Hvernig er að vera án körfubolta útaf þessum aðstæðum?
“Það eru mikil vonbrigði og fremur skrýtið en ætli flestir séu nú ekki fljótir að forgangsraða í kollinum á sér þegar svona einstakar aðstæður koma upp. Þegar allt leikur í lyndi þá er auðvelt að segja að „lífið sé körfubolti” en þegar á reynir eins og núna þá eru það aðrir þættir sem skipta mun meira máli. Það eru allir leikmenn í íþróttinni að upplifa mikil vonbrigði vegna ástandsins og maður getur ekki annað en sýnt þeim vonbrigðum samkennd”
Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá hreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?
“Heilsufarsleg sjónarmið verða auðvitað rauði þráðurinn og þar þarf bara að hlíta ákvörðunum yfirvalda og við munum örugglega standa okkur vel í því sem þjóð. En hvað körfuknattleikshreyfinguna varðar þá sýnist mér að það verði mikil áskorun að landa ákvörðun sem muni falla vel í kramið hjá öllum sem eiga hlut að máli, því miður. Ég tel það mikilvægt að Körfuknattleikssambandið taki góðan púls á sínum aðildarfélögum, kanni hug þeirra til ástandsins og leggi svo mat á það sem komi upp úr krafsinu og kynni svo sína niðurstöðu. Þó félögin í landinu hafi kosið sér körfuknattleiksforystu tel ég það ráðlegt við fordæmalausar aðstæður að ná tali af flestum ef ekki öllum hagsmunaaðilum og ég treysti KKÍ til þess að gera einmitt það. KKÍ er ekki öfundsvert af þessari stöðu”

Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?
“Ef tímabilinu verður aflýst þá er það mín persónulega skoðun að það eigi ekki að krýna neina meistara, get því miður ekki byggt það svar mitt á neinni reynslu en við erum að hætta leik þegar hann stendur hvað hæst og eitthvað segir mér að það sé ekkert lið sem vilji láta krýna sig meistara við þessar aðstæður. Hvað varðar lið sem eigi að fara upp og eða niður þá varðandi Domino´s-deildina er eitt á hreinu og það er að Fjölnir var fallið fyrir samkomubann en er það sanngjarnt að láta þá taka þeim afleiðingum og hver fer þá upp? Á sama ákvörðun að gilda þvert á allar deilir eða þarf að skoða hverja deild fyrir sig og stöðuna í henni? Það eru margar spurningar sem liggja fyrir og ég bara fæ mig ekki til þess að spá fyrir um hverjir eigi að lifa og hverjir eigi að falla en mín skoðun er sú að það eigi ekki að krýna neina meistara”

Fari svo að því verði frestað, sérðu fyrir þér að liðin verði klár til þess að klára mótið seinna, jafnvel í sumar?
“Ég gæti alveg séð liðin klára mótin síðar þegar samkomubanni er aflétt og útbreiðsla veirunnar í rénun eða nánast horfin. Það gefur þó auga leið að fá ef nokkur félög hafa tök á því í innkomuleysinu að halda úti erlendum atvinnumönnum svo ef einhver lokahnykkur yrði á leiktíðinni 2019-2020 þá myndi hann sjaldanst líta út eins og stóð til”
Að lokum, með hverju mælir Jón Björn í samkomubanninu?
“Ég mæli með því að Stöð 2 Sport raði inn völdum leikjum úr úrslitakeppnum síðustu áratugina og félögin verði dugleg að hvetja iðkendur sína áfram við að slípa til hæfileika sína heimavið”