Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.

Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.

Næst í röðinni er körfuknattleikskona ársins Helena Sverrisdóttir. Helena og hennar stöllur í Vali unnu alla titla sem í boði voru í fyrra og vörðu á dögunum deildarmeistaratitil sinn í Dominos deildinni.

Hvernig er að vera í leyfi útaf þessum aðstæðum?

“Það er ótrúlega skrýtið að vera allt í einu ekki að mæta á æfingar á hverjum degi og líklegast sé tímabilið bara búið. Öll þessi vinna til að toppa á réttum tíma farin í vaskinn. En þetta er auðvitað bara ákveðið óvissustig sem er í gangi í öllum försum lífsins, þannig karfan er bara hluti af því. En manni líður auðvitað skringilega með þetta allt saman.”

Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá hreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?

“Þetta eru auðvitað gríðarlega erfiðar ákvarðanir þar sem útkoman mun alltaf vera einhverjum í óhag eða einhverjir verða ósáttir. Ætli það sé ekki best að reyna að skoða í kringum okkur og sjá hvað önnur sambönd hafa verið að gera. Svo í framhaldinu þyrfti að setja þetta inn í regluverkið, vonandi mun eitthvað álíka aldrei koma fyrir aftur en mikilvægt að vera þá betur undirbúin.”

Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?

“Sýnist að flestir í kringum okkur hafi gert þetta svoleiðis, að þeir sem eru efstir núna eru meistarar, þeir sem eru á botninum falla.. en ég veit ekki alveg hvað er réttast í stöðunni. Ég hef kannski ekki myndað mér neina skoðun um hvað sé best eða réttast að gera í þessu, held það sé ekkert eitthvað eitt betra en annað, það þarf bara að taka ákvörðun og standa við það. Það versta í þessu er þessi óvissa sem er í gangi.”

Fari svo að því verði frestað, sérðu fyrir þér að liðin verði klár til þess að klára mótið seinna, jafnvel í sumar?

“Sem íþróttamanni langar mann að fá að spila um þann stóra en ég sé bara ekki hvernig það er hægt að áætla að lið og leikmenn séu til taks langt fram á sumar, við körfuboltamenn erum með langt tímabil og flestir kannski búnir að skipuleggja utanlandsferðir og frí með fjölskyldum í sumar. Einnig er þá spurning hvernig verður með útlendinga liðanna og þá óvissu að borga þeim frammá vorið en svo kannski ekki spila og kannski spila en þá án áhorfenda. Auðvitað langar manni ótrúlega mikið að klára tímabilið og manni finnst eins öll þessi vinna síðan í ágúst sé bara farin utum gluggann. En þetta eru bara ótrúlega sérstakir tímar sem við höfum ekki séð áður og við verðum bara að lifa með því.”

Að lokum, með hverju mælir Helena í samkomubanninu?

“Þetta er svoleiðis búið að kippa okkur öllum niður á jörðina. Held að þetta sýni okkur og minni okkur á það mikilvægasta í þessu lífi, sem er heilsan okkar og fjölskyldan.”

“Ég mæli með að fólk noti tímann í samveru með fjölskyldu og útiveru eins og hægt er. Minna með símann í andlitinu og förum “back to the basics” þar sem samvera einkennist af spjalli, leikjum og skemmtun. Dusta rikið af spilum og þess háttar.”