Í kvöld buðu KR-ingar Skallagrímskonur velkomnar í DHL-höllina, að vana var leikurinn flautaður af stað kl. 19:15. Eins og flestir vita fór bikarleikurinn Skallagrímskonum í vil og var þetta í fyrsta sinn sem liðin mætast eftir þann leik.

Leikurinn byrjaði hægt, leikmenn virtust passasamir og ekki var mikið um skoraðar körfur fyrstu fimm mínúturnar. Upphafs mínútur einkenndust af vörðum skotum, stolnum boltum og fráköstum. Það voru hins vegar gestirnir sem áttu fyrstu stig leiksins og það virtist allt eins og framundan yrði hörkuleikur miðað við baráttuna inn á vellinum. Mikið fór fyrir Sanja og Danielle á vellinum eins og vanalega, en hún Margrét Kara átti einnig frábæran fyrsta leikhluta. Hinu megin voru Keira og Mathilde mest áberandi þó svo að þær voru ekki að spila sinn besta leik. Fyrsti leikhluti endaði heimakonum í vil sem skoruðu 19 stig gegn 10.

Annar leikhluti einkenndist af hörku vörn heimakvenna, þær þvinguðu Skallagrím í langar sóknir og neyddust gestirnir oft að taka skot á síðustu sekúndum skotklukkunnar. Margrét Kara fær aftur hrós fyrir það að láta mikið fara fyrir sér, hún var einhvern veginn allt í öllu á vellinum. Hún spilaði bæði hörku vörn, tók mörg fráköst og skora fyrstu sjö stig KR-inga. Perla kom einnig með sterka innkomu eftir skiptingu við Margréti Köru. Skallagrímskonur tóku heilan helling af fráköstum í öðrum leikhluta, en það er kannski vegna þess að þær voru ekki að ná að koma boltanum ofan í hringinn. Annar leikhluti endaði með 23 stigum gegn 8 frá gestunum og því staðan í hálfleik 42 : 18.

Staðan í leiknum leit ekki alltof vel út fyrir gestina en þær nýttu leikhléið milli leikhluta vel og mættu sterkar inn í þriðja leikhluta. Það var allt annað að sjá liðið eftir hálfleik, það var miklu meiri harka sem fylgdi þeim og mikil barátta. KR-ingar misstu hausinn gegn hörku vörn gestanna og varð það til að gestirnir náðu að saxa vel á forskotið. Gestirnir unnu leikhlutann með sjö stigum, en boltinn var að rúlla með þeim. Staðan fyrir loka leikhlutann því 54 stig gegn 37 stigum.

Fjórði leikhluti byrjaði eins og sá þriðji með mikilli baráttu gestanna, þær byrjuðu á að stela boltanum sem kveikti undir KR-ingum sem svöruðu vel fyrir sig. Heimakonur komu sér aftur í vörn, vörðu skotið og fengu svo villu hinu megin. Leikurinn var orðið mun grófari en hann var í fyrri hálfleik, leikmenn lentu oft í gólfinu eftir átök og olnbogaskotin urðu áberandi mikil. Dómararnir reyndu að halda leiknum í ró en það var mikill hiti á gólfinu. Tekið var leikhlé þegar rétt rúmlega þrjár mínútur lifðu leiks og um það leyti sem kólnaði örlítið á gólfinu. Liðin voru bæði að spila góða en samt grófa vörn, þetta var ekki fallegur leikur að horfa á.

Þegar rétt um mínúta var eftir voru óreyndari leikmönnum skipt inn á til þess að klára leikinn, augljóst að sigurinn væri í höfn KR-inga. Heimakonur enduðu leikinn á stökkskoti frá fyrirliðanum. Eftir það tók Sigrún Sjöfn upp boltann og leyfði klukkunni að renna út sem var heiðursvert. Gestirnir unnu einnig fjórða leikhlutann með þó tveimur stigum í þetta sinn, þær gerðu vel að koma sér aftur inn í leikinn en dugði það ekki til. Lokastaðan í DHL-höllinni í kvöld var því 65 : 50.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Regína Ösp