Fyrir um ári síðan ákvað einn af efnilegri leikmönnum Dominos deildarinnar og Íslands, Hákon Örn Hjálmarsson, að kveðja landið í bili og ganga í skóla og til liðs við Binghamton University Bearcats í New York fylki Bandaríkjanna. Gerði hann það eftir að hafa farið í oddaleik með ÍR í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn.

Hákon, sem er í dag 21. árs gamall, leikið upp alla yngri flokka ÍR og með meistaraflokk félagsins frá því hann var 16 ára gamall, en þá hefur hann einnig verið hluti af öllum yngri landsliðum Íslands. Síðasta tímabil hans með ÍR stórgott, í 29 leikjum skilaði hann 10 stigum, 3 stoðsendingum og 3 fráköstum á 24 mínútum spiluðum að meðaltali í leik.

Karfan setti sig í samband við Hákon og spurði hann aðeins út veruna í Vestal, New York og þetta fyrsta ár hans í háskólaboltanum.

Hvernig fannst þér þetta fyrsta ár ganga hjá þér hjá Binghamton?

“Að mörgu leiti gekk fyrsta tímabilið betur en ég bjóst við þar sem ég komst í byrjunarliðið strax í fjórða leik og spilaði töluvert meira en ég hafði fyrirfram gert ráð fyrir. Ég var í byrjunarliðinu í 11 leikjum af 29 á tímabilinu og í þeim sem ég byrjaði ekki var ég yfirleitt fyrstur inn af bekknum sem er frekar sjaldgjæft fyrir freshman”

Voru mikil viðbrigði að flytja frá Reykjavík til Vestal í New York?

“Já. Þetta er nátturulega töluvert stærra samfélag en maður er vanur. Helsti munurinn er sennilega maturinn en það er töluvert auðveldara að komast í hollan mat á Íslandi en þarna úti þar sem nánast allt er skyndibiti. Síðan er mikill fjölbreytileiki í leikmannahópnum, þar sem menn koma frá meðal annars frá Suður Súdan og hinum og þessum stöðum í Bandaríkjunum og er því mikill menningarmunur. Það er líka mikill munur á umgjörðinni þarna, til dæmis erum við með 6 körfuboltaþjálfara, styrktarþjálfara og sjúkraþjálfara sem sjá bara um liðið okkar”

“Einnig er Binghamton með mjög sterkt nám. Hann var valinn nr 1 public state University í New York fylki, svo það eru lagðar miklar kröfur á námið”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima, hver er helsti munurinn?

“Já, það er töluvert meiri munur en ég bjóst við. Helsti munurinn er hraði leiksins og hvað menn eru fáranlega miklir iþróttamenn. Leikstíllinn er líka mjög ólíkur, mikill isolation bolti og til að koma í veg fyrir það spila lið mikið af svæðisvörn. Svo eru æfingarnar töluvert lengri en heima, en þær eru yfirleitt 2 – 2 ½ tíma æfingar og svo fylgja 1 – 1 ½ tíma lyftingar eftir það”

Nú er liðið að leika í fyrstu deild háskólaboltans, er mikill munur á tímabilinu þar og heima í Dominos deildinni?

“Það er þvílikt mikill munur. Tímabilið er töluvert styttra en þrátt fyrir það eru spilaðir fleiri leikir en heima. Álagið er töluvert meira þar sem er spilað 2-3 leiki í viku. Svo er ferðalögin líka miklu lengri, ekki er óalgengt að við keyrum í rúma 5 tíma en yfirleitt ef það er lengra en það þá fljúgum við. Við ferðumst alltaf daginn fyrir leik og gistum á hóteli. Sem er töluvert öðruvísi en að mæta bara klukkutíma fyrir leik eins og heima”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði, náðuð þið að klára körfuboltatímabilið og námsönnina?

“Tímabilið var tæknilega séð búið hja okkur þar sem við áttum svo kallaða “bye week” í síðustu umferðinni, þar sem það eru 9 lið í riðlinum þarf alltaf eitt lið að sitja hjá í hverri umferð. Svo var sett fyrir að önnin yrði kláruð á netinu í fjárnámi og öllum íþróttahúsunum okkar var lokað svo það fátt annað í stöðunni en koma sér á klakann”

Gerum ráð fyrir að þú farir aftur út næsta haust, hver eru helstu markmiðin körfuboltalega fyrir næsta tímabil?

“Jú, planið er að fara aftur út næsta haust. Helstu markmið mín fyrir næsta tímabil er að vinna fleiri leiki og festa mig stóru hlutverki í liðinu”