Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.

Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.

Næstur í röðinni er fyrrum þjálfari Íslandsmeistara KR og aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, núverandi þjálfari Horsens IC í Danmörku, Finnur Freyr Stefánsson.

Hvernig er að vera án körfubolta útaf þessum aðstæðum?

“Þetta er auðvitað glatað. Við áttum fjóra leiki eftir fyrir úrslitakeppnina í Danmörku og líkt hjá öllum mikil vinna að baki í undirbúningi. Við áttum að spila leik síðastliðinn föstudag – á miðvikudeginum vorum við a fullu að æfa, eftir æfingu tilkynnt um samgöngubann í DK og á fimmtugsdagskvöld var ég kominn heim til Íslands”

Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá hreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?

“Heilsa og öryggi leikmanna og þátttakenda leiksins verður að vera í fyrirrúmi. Ef við getum ekki tryggt það, þá getum við ekki spilað”

“Fjárhagslega hliðin er svo hinn þátturinn. Það er ljóst að mörg lið stefndu á stóra hluti í úrslitakeppninni – og reiknað með tekjum þaðan. Heilsan vegur hins vegar þyngra og verða t.a.m. við þjálfarar og leikmenn á átta sig á forsendubresti á samningum sem þetta ástand er. Við verðum að vera klárir í að taka hluta af högginu á okkur sjálfa, svo það verði grundvöllur fyrir framhaldi á næsta timabili”

Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?

“Ég held að það séu of margir óvissuþættir til að hægt sé að fresta mótinu áfram, frekar að aflýsa því og senda menn til síns heima. Að því sögðu er erfiðasta verkefnið að ákveða hvað eigi að gera við liðin sem eru við það að færast upp og niður um deildir. Varðandi kvennadeildina er þetta tilvalið tækifæri til að fjölga í Dominos deild kvenna, ekkert lið niður og leyfa þeim liðum sem vilja prófa sig í deildina að gera það (an þess að fara yfir 12 lið)”

“Varðandi karladeildirnar er engin góð lausn held ég. Annað hvort 2 neðstu liðin einsog staðan er nuna niður og 2 efstu i 1.deild upp. Eða þar sem Fjölnir er sannlega fallið að það færist bara 1 lið upp og niður. Varðandi Íslandmeistaratitlana þá held ég að þó að eitthvert lið verði krýnt Íslandsmeistarar að nafninu til þá verði enginn stoltur eða sannarlega ánægður með það. Krýna efstu liðin deildarmeistara og geyma svo Íslandsmeistara bikaranna í eitt ár hjá Barnaspítalanum með hvatningu til bólusetninga væri fín lausn”

Að lokum, með hverju mælir Finnur Freyr í samkomubanninu?

“Fyrir utan það augljósa að huga að eigin heilsu og fjölskyldu þá hvet ég okkur þjalfaranna að nýta tímann vel til að rýna í liðið tímabil með gagnrýnum huga, læra af þvi goða og slæma og verða betri fyrir vikið. Byrja svo bara að plana baráttuna fyrir næsta haust”