KKÍ sendi frá sér tilkynningu rétt í þessu þar sem tilkynnt er að keppnistímabilinu 2019-2020 er lokið. Núverandi tölfustaða er lokastaða þessa tímabils.

Því hefur verið tekin ákvörðun að Fjölnir fellur úr Dominos deild karla. Höttur sem situr í efsta sæti þessa stundina fer upp í Dominos deildina. Stjarnan er deildarmeistari en ekkert lið verður Íslandsmeistari.

Grindavík fellur úr Dominos deild kvenna og Fjölnir tekur sæti þeirra. Valur er deildarmeistari en ekkert lið verður Íslandsmeistari.

Fréttin verður uppfærð.

Tilkynning KKÍ í heild sinni er hér að neðan:

Stjórn KKÍ fundaði í hádeginu í dag til að ræða framhald Domino‘s deilda og 1. deilda karla og kvenna. Það er ekki ofsögum sagt að þær aðstæður sem uppi eru í dag eru án fordæma og því var það verkefni sem beið stjórnar KKÍ vandasamt og krefjandi.

Fyrir fundinn höfðu starfsmenn KKÍ teiknað upp nokkrar sviðsmyndir með mismunandi útfærslum af keppnisfyrirkomulagi að loknu samkomubanni. Stjórn KKÍ ræddi þessar sviðsmyndir á fundi sínum í dag og þá möguleika sem þær fela í sér. Vitað var að allar þær ákvarðanir sem hægt var að taka eru erfiðar og að einhverju leyti slæmar, sér í lagi þar sem ekki verður hægt að nýta reglugerðir sambandsins.

Vitað er að talsverð óvissa er framundan hvað varðar stöðu erlendra leikmanna og möguleika þeirra til að snúa aftur til landsins þegar rofar til. Ekki er vitað vitað hvort og hvaða leikmenn geta hugsanlega snúið aftur til Íslands þegar mótið yrði sett á að nýju. Þar eru það ekki aðeins aðgerðir íslenskra yfirvalda sem geta haft áhrif þar heldur aðgerðir annarra stjórnvalda eins og við höfum séð í fréttum undanfarna daga. Einnig er nokkur óvissa með hversu lengi samkomubann muni vara sem og flækjustig og vandamál tengd liðsæfingum í samkomubanni. Einnig er ekki ljóst hvort stjórnvöld muni grípa til harðari eða kraftmeiri aðgerða í baráttu sinni.

Algjör óvissa er á þessari stundu hversu alvarleg áhrif kórónavírusinn og COVID-19 sjúkdómurinn muni hafa á leikmannahópa, þjálfarateymi, dómara, sjálfboðaliða og annað starfslið félaga í umræddum deildum. Mikilvægt er að huga að öllum þeim þátttakendum sem koma að leiknum og getu félaga til að tefla fram liði/leikmönnum með þjálfurum, sem og getu félaga til að sjá um heimaleiki sína og að hafa fullfríska dómara. KKÍ þarf, eins og aðrir í þjóðfélaginu að huga að heilsu og heilbrigði allra þeirra sem að íþróttinni koma.

Af samtölum íþróttahreyfingarinnar við yfirvöld má skilja að það fjögurra vikna samkomubann sem sett hefur verið sé lágmark, það hefur og komið fram á daglegum blaðamannafundum almannavarna að ekki er víst að fjórar vikur dugi og að líkön þeirra geri ráð fyrir að þjóðfélagið verði að einhverju leyti í lamasessi fram á sumarmánuði vegna kórónavírussins. Aðgerðir stjórnvalda hafa verið að herðast undanfarna daga og óvíst hver staðan verður á næstu misserum vegna þess. Að framansögðu má telja ljóst að ekki verður hægt að spila strax og samkomubanni verður aflétt, einnig er ekki víst hvort lið verða fullmönnuð. Ómögulegt yrði því að festa dagsetningar að loknu því ástandi sem nú ríkir.

Það óvænta rof sem orðið hefur á keppnisdagatalinu, ásamt þeirri óvissu sem fylgir um áframhaldandi aðgerðir stjórnvalda í baráttunni gegn kórónaveirunni og áhrif veirunnar á félög KKÍ voru að endingu það leiðarljós sem stjórn sambandsins fylgdi. Allir eru 2 meðvitaðir um að engar ákvarðanir eru í boði þar sem allir njóta algjörrar sanngirni, þar sem eina rétta og sanngjarna niðurstaðan fæst með því að klára deildar- og úrslitakeppnir. Í grunninn má segja að allar ákvarðanir verði rangar, en hlutverk stjórnar KKÍ er þá að taka ákvörðun sem hún telur besta fyrir körfuknattleikshreyfinguna til lengri tíma litið.

Niðurstaða stjórnar KKÍ við það ástand sem við blasir er því að ekki verður keppt frekar á keppnistímabilinu 2019/2020. Einnig samþykkti stjórn KKÍ eftirfarandi á fundi sínu, miðvikudaginn 18. mars 2020

1. Enginn Íslandsmeistari verður krýndur tímabilið 2019/2020.

2. Sú niðurstaða sem deildarkeppni Domino’s deilda og 1. deilda hefur þegar gefið okkur ræður.

i. Fjölnir fellur niður í 1. deild karla.

ii. Valur er deildarmeistari Domino’s deildar kvenna og Fjölnir deildarmeistari 1. deildar kvenna.

3. Núverandi stöðutafla er lokastaða Domino’s deilda og 1. deilda tímabilið 2019/2020. Það þýðir að,

i. Stjarnan er deildarmeistari Domino’s deildar karla.

ii. Höttur er deildarmeistari 1. deildar karla og vinnur sér sæti í Domino’s deildinni tímabilið 2020/2021. Engin frekari breyting verður á Domino’s deild karla.

iii. Grindavík fellur úr Domino’s deild kvenna. Fjölnir er deildarmeistari 1. deildar kvenna og vinnur sér sæti í Domino’s deildinni tímabilið 2020/2021. Engin frekari breyting verður á Domino’s deild kvenna.

Vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru og hafa stuðlað að ótímabærum lokum keppnistímabilsins 2019/2020 má ljóst vera að mörg félög muni lenda í fjárhagsvanda vegna talsverðs tekjumissis. Það sama mun gilda um fjárhag KKÍ. Það verður verðugt verkefni allra hlutaðeigandi að takast á við þann vanda.

Stjórn og starfsmenn KKÍ vilja að lokum þakka aðildarfélögum sínum innilega fyrir sýnda biðlund og mikinn skilning á við þessar erfiðu aðstæður sem uppi eru. Við óskum ykkur alls hins besta í framhaldinu.

Áfram körfubolti.