Þrátt fyrir að nú sé erfitt að halda úti formlegum æfingum í körfunni þá  þarf körfuboltinn ekki að stoppa. Það er mikilvægt í því ástandi sem er núna að krakkar jafnt sem fullorðnir næri nú vel líkama og sál með góðri æfingu og því er um að gera að nýta það sem hægt er til gera æfingar heima og þá kemur Driplið hjá KKÍ sterkt inn. Driplið er góð tækniþjálfun sem er ætlað krökkum á aldrinum 9-11 ára en þessar æfingar eru í raun óháðar aldri og í raun þarftu ekki einu sinni að æfa körfubolta til að reyna við þessar æfingar. Það er því tilvalið fyrir foreldra til dæmis að gera þessar æfingar með börnunum sínum. Svo er hægt að gera ýmsar aðrar íþróttaæfingar óháð körfubolta.

Hægt er að nálgast Driplið hér, sem og á YouTube-rás KKÍ. 

Til þess að fá sem flesta til að taka þátt á öllum aldri þá ætlar KKÍ að setja af stað leik á samfélagsmiðlinum Instagram með því að krakkar jafnt sem fullorðnir setji inn myndband af sér eða öðrum að gera tækniæfingar frá Driplinu nota þarf #driplid og #korfubolti þegar myndir eru settar inn. Fullorðnir geta sett inn myndböndin fyir sín börn sem eru undir aldri samkvæmt reglum samfélagsmiðla. Leikurinn mun hefjast á Instagram á morgun miðvikudag og mun 3-5 einstaklingar verða dregnir út á hverju degi næstu daga og fá þá meðal annars gjafabréf frá Domino´s, íþróttadrykkinn Gatorade, körfubolta og fleira skemmtilegt.