Breiðablik og Keflavík mættust í fjórðu viðureign liðanna í Dominosdeild kvenna í kvöld. Þetta var jafnframt síðasti leikurinn milli liðanna enda var leikurinn hluti af 24. umferð deildarkeppninnar og örfáir leikir eftir.

Blikarnir mættu andlausir til leiks og Keflavík vann því sannfærandi 68-86.

Fyrir leikinn

Keflavík hafði unnið fyrstu þrjá leikina gegn Breiðablik með samtals 67 stigum (22,3 stigum að meðaltali í leik) og ætluðu sér sigur í kvöld til að komast upp í þriðja sætið. Skallagrímur og Keflavík eru að takast á um þriðja sætið í úrslitakeppninni og Keflavík gat styrkt stöðu sína með sigri á Kópavogsliðinu.

Blikar vildu vinna leikinn til að tryggja stöðu sína í deildinni, en þær voru einum sigri á undan Grindavík sem eru að berjast við að falla ekki alveg eins og Breiðablik.

Bæði lið voru að keyra á fullum mannskap en Isabella Ósk Sigurðardóttir, miðherji Breiðabliks, var loks komin aftur eftir langa fjarveru vegna krossbandsslita. Þetta var sjöundu leikur hennar á tímabilinu.

Gangur leiksins

Blikar byrjuðu leikinn mjög illa og áttu mjög erfitt með að koma sóknum sínum í gang. Keflvíkingar voru á sama tíma að láta boltann ganga vel og fá góð færi sem að þær settu. Þegar fimm mínútur voru liðnar var staðan orðin 7-19 fyrir Keflavík og Ívar Ásgrímsson, þjálfari Blika, tók leikhlé. Munurinn hélst nokkuð stöðugur eftir það fram til enda leikhlutans sem fór 13-26 fyrir gestunum.

Strax í fyrstu sókn annars leikhluta virtust heimastúlkur hafa hert sig því að boltaflæðið var margfalt betra en áður. Á sama tíma var Jonni, þjálfari Keflavíkur, að keyra aðeins á varamönnum sínum og hægt og bítandi komust Blikastelpur aftur inn í leikinn.

Í stöðunni 25-29 skipti Jonni loks þremur byrjunarliðsleikmönnum aftur inn á og Keflavík tók sitt eigið áhlaup gegn nýafstöðunu áhlaupi heimaliðsins. Breiðablik komst þó aftur af stað þegar Keflavík fór að brjóta heldur meira en tilefni þótti til og Blikar fengu fjöldann allan af vítaskotum. Staðan var 34-40 þegar liðin héldu inn í búningsklefana í hálfleik.

Undirritaður hafði aldrei séð jafn daufan fyrri hálfleik, það var eins og það vantaði allan anda í Breiðablik. Keflavík sýndi aðeins meiri lit og höfðu því forystuna.

Keflavík byrjaði seinni hálfleikinn eins og þann fyrri og spiluðu stífa vörn og beitta sókn. Þegar þrjár mínútur voru liðnar höfðu Keflvíkingar skorað tólf stig gegn einu og Ívar varð að taka leikhlé fyrir Breiðablik. Það skilaði litlu og bandarískur leikmaður Blika, sem hafði skorað 23 af 34 stigum liðsins í fyrri hálfleik, gat skyndilega ekki keypt sér körfu. Minni spámenn Breiðabliks gátu þó haldið aðeins í við Keflavík svo staðan var 54-64 eftir 30 mínútur. Ekki óyfirstíganlegur hjalli.

Í lokafjórðungnum misstu Breiðabliksstelpur alla trú á leiknum sínum og Keflvíkingar óðu yfir þær bæði varnarlega og sóknarlega. Heimaliðið nældi sér í nokkrar tæknivillur og leikurinn var eiginlega búinn þegar fimm mínútur voru enn eftir af leiknum. Hann fór að lokum 68-86 fyrir Keflavík.

Lykillinn

Lykillinn að sigri Keflavíkur var liðsheildin, þó að Daniela Morillo hafi skorað mest og frákastað mest (19 stig og 12 fráköst). Emelía Ósk Gunnarsdóttir stóð upp úr en liðið vann mínúturnar hennar með 32 stigum (+32 stig þegar hún var inn á).

Hjá Breiðablik var Danni Williams stigahæst með 33 stig en vörn hennar var ekki upp á marga fiska í þessum leik. Isabella Ósk Sigurðardóttir var frákastahæst hjá Breiðablik með 10 fráköst.

Áhugaverð tölfræði

Það vakti athygli að þrátt fyrir að Breiðablik tapaði leiknum með átján stigum þá skilaði einn leikmaður frábærri plús/mínus-tölfræði fyrir heimastelpurnar.

Isabella Ósk spilaði 24 mínútur í leiknum og liðið vann þær mínútur með 13 stigum. Mjög áhugavert.

Kjarninn

Breiðablik mættu daufar inn í leik sem að þær gátu unnið ef að þær hefðu spilað af meiri áfergju. Í leik sem hefði getað komið þeim endanlega úr fallhættu þá virtust Blikastelpur andlega fjarverandi.

Keflavík spilaði stífa vörn og barðist allan leikinn og sótti þennan sigur á útivelli sem er dálítið erfiður fyrir mörg lið.

Keflvíkingar eru enn í fjórða sæti deildarinnar og á eftir Skallagrím, sem vann leikinn sinn í kvöld, en þær eiga leik til góða sem var frestað. Þær eru enn á góðum stað og geta náð þriðja sætinu ef að þær halda áfram á þessu róli.

Blikar þurftu þennan sigur til að hafa smá andrými í fallslagnum, en nú verða þær að vinna einhvern af næstu leikjum sínum eða þá vona að Grindavík geti ekki heldur unnið einhvern af síðustu fjórum leikjunum sínum.

Viðtöl eftir leikinn

Jonna þjálfara fannst sigurinn hafa verið erfið fæðing, en var sáttur með liðið sitt.
Ívar Ásgríms segir að liðið láti ekki eins og það sé að spila fyrir lífi sínu í deildinni.