Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.

Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.

Næstur í röðinni er Brynjar Þór Björnsson leikmaður margfaldra Íslandsmeistara KR.

Hvernig er að vera í leyfi útaf þessum aðstæðum?

“Þetta er skrítin staða enda er vorið tími úrslitakeppnarinnar og þá hækkar spennustigið hjá öllum sem tengjast sportinu. Ég mun auðvitað sakna þessarar tilfinningar en að sama skapi vil ég stuðla að því að við sem samfélag ráðum við Covid-19”

Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá hreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?

“Að óvissunni sé eytt. Miðað við ástandið eins og það er í dag er of mikil óvissa með framhaldið og því tel ég skynsamlegast að aflýsa mótinu eða færa það fram á haustið”

Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?

“Það er í höndum KKÍ að ákveða það hvað þau gera með liðin í botnsætunum. Varðandi sjálfan Íslandsmeistaratitilinn tel ég engan vilja vinna titilinn á þeim forsendum eins og þær eru í dag. Annaðhvort á að klára úrslitakeppnina í haust eða setja bandstrik við árið 2020”

Fari svo að því verði frestað, sérðu fyrir þér að liðin verði klár til þess að klára mótið seinna, jafnvel í sumar?

“Nei. Það er of mikil óvissa varðandi ástandið og þá sérstaklega erlendu leikmennina”

Að lokum, með hverju mælir Brynjar í samkomubanninu?

“Njóta samverunnar með fjölskyldunni. Finna leiðir til skemmtunar, íhuga og fá góðar hugmyndir sem hægt er að framkvæma þegar yfirhöndinni gagnvart Covid-19 er náð”