Fordæmalausar aðstæður eru uppi í heimi íþrótta þessa dagana. Þar sem að keppni hefur annaðhvort verið frestað um óákveðinn tíma, eða tímabilinu aflýst í flestum deildum.

Karfan fór af stað og tók stöðuna hjá nokkrum málsmetandi aðilum.

Næstur í röðinni er Arnar Freyr Jónsson, fyrrum leikmaður Keflavíkur, Grindavíkur, Aabyhøj IF, BC Aarhus og íslenska landsliðsins.

Hvernig er að vera án íþrótta útaf þessum aðstæðum?

“Það verður að viðurkennast að það er smá skrítið. Maður er vanur að komast alltaf í eitthvað sport, sama hvað það er”

Nú eru stórar ákvarðanir framundan hjá körfuboltahreyfingunni, hvað finnst þér mikilvægast að sé til hliðsjónar þegar ákvarðanir eru teknar?

“Öryggi leikmanna og þeirra sem koma nálægt okkar fallegu íþrótt skiptir mestu máli. Hvort sem það er í starfi eða sjálboðavinnu. Heilsa fólksins í landinu er númer eitt, tvö og þrjú.

Stórum spurningum enn ósvarað, fari svo að tímabilinu verði aflýst. Hvað leggur þú til að verði gert varðandi þau lið sem koma eigi upp, falla eigi niður og finnst þér að eitthvað lið ætti að fá þann stóra, líkt og við höfum séð í Belgíu og Svíþjóð?

“Þetta er mjög leiðinlegt sem er að gerast. Í stóra samhenginu þá skipta íþróttir þó ekki miklu máli. Veit ekki hvað er best í stöðunni. Held þó það mætti krýna deildarmeistara, Stjörnuna og Val”

“Eitt lið fellur karlamegin og ekkert lið í Dominos deild kvenna. Enginn verður Íslandsmeistari, það vill engin verða meistari svona. Þú vilt vinna þér hann inn. Þú getur ekkert sagt mér að Stjarnan verði Íslandsmeistarar bara af því þeir eru i efsta sætinu núna. Tímabilið er því miður búið”

Fari svo að því verði frestað, sérðu fyrir þér að liðin verði klár til þess að klára mótið seinna, jafnvel í sumar?

“Nei, aldrei. Frestun virkar ekki og eru þar nokkrar ástæður fyrir. Því miður erum við komin á þann stað, það er bara næsta tímabil”

Að lokum, með hverju mælir Arnar Freyr í samkomubanninu?

“Njóta þess að vera með fjöskyldunni, gera eitthvað saman, koma sér út í ferska loftið og hreyfa sig. Reyna að taka hlutunum með jafnaðargeði og jákvæni i fremst í huga”