Haukar tilkynntu rétt í þessu að Ari Gunnarsson hafi verið ráðin þjálfari meistaraflokks kvenna út tímabilið.

Ari tekur við liðinu af Ólöfu Helgu Pálsdóttur sem stýrði liðinu síðustu tvö ár en var látin fara frá liðinu fyrir stuttu. Ari hefur þjálfað lið Vals, KR, Hamars og Skallagríms auk þess sem hann hefur þjálfað hjá Fjölni síðustu misseri.

Á heimasíðu Hauka segir: „Við erum mjög ánægð að fá Ara til starfa hjá Haukum. Meistaraflokkur kvenna er í harðri baráttu að komast í úrslitakeppnina og bindum við miklar vonir við að reynsla og þekking Ara hjálpi liðinu að komast í hana,“ sagði Bragi Magnússon formaður kkd. Hauka.

„Ég er ánægður að til mín sé leitað í þetta verkefni. Haukar er með gott lið og á að vera í úrslitakeppninni og vona ég að allir stefni þangað,“ sagði Ari þá í samtali við heimasíðu Hauka.

Fyrsti leikur Ara með Hauka er í kvöld er liðið mætir Breiðablik í Smáranum. Fjórar umferðir eru eftir í deildinni og eru Haukar tveimur stigum frá fjórða sætinu. Það er því mikil barátta framundan.