Álftnesingar unnu Vestra í kvöld í Forsetahöllinni í leik sem menn vissu ekki hvort að yrði seinasti leikur tímabilsins í ljósi samkomubanns ríkisstjórnarinnar og frestanagleði KKÍ undanfarna daga. Leikurinn var í járnum allan tímann en góður lokakafli hjá heimaliðinu skilaði fimm stiga sigri, 81-76.

Fyrir leik var ljóst að Vestramenn myndu spila án Nebojsa Knezevic, stiga- og stoðsendingarhæsta leikmannsins síns. Álftanes voru með alla sína helstu stólpa í liðinu og von á sæmilegum leik. Áhorfendur ræddu það í stúkunni fyrir leik að þetta gæti verið seinasti leikurinn sem þeir sæju og ljóst að allir þyrftu að reyna njóta sín í botn og hafa gaman af leiknum.

Gangur leiksins

Vestri opnaði leikinn betur og tóku fljótlega forystuna með því að setja boltann inn í teig á stóru mennina sína sem fóru nokkuð illa með framlínu Álftanes. Dúi Þór hélt hins vegar heimamönnum á floti með nokkrum stökkskotum beint af driplinu og Álftnesingar voru fljótlega komnir inn í leikinn eftir það.

Stærð Vestra virtist valda Álftanesi vandræðum framan af en heimamenn gátu svarað því með hraða og fóru að tvöfalda á stóru menn gestanna þegar þeir fengu boltann nálægt körfunni. Á tímabili gátu skyttur Vestra refsað Álftanesi þegar þeir tvöfölduðu undir körfunni en áfram hélt Dúi að skora næstum því að vild. Hann tók þar að auki lokaskotið hjá sínu liði til að taka forystuna fyrir hálfleikshléið, 39-37.

Álftanes hefur verið þekkt fyrir að eiga slaka þriðja leikhluta og þeir breyttu ekki út af vananum í þessum leik. Vestri skoraði níu fyrstu stig seinni hálfleiksins úr aragrúa af töpuðum bolta hjá heimaliðinu. Hrafn Kristjánsson, þjálfari heimamanna, sá sig tilneyddan að taka leikhlé eftir rúmar þrjár mínútur til að ræða við sína menn. Staðan lagaðist aðeins eftir það og ákafari vörn hjá Álftnesingum varð til þess að skot Vestfirðinga hættu að detta jafn vel. Gestirnir gátu þó rétt sig af fyrir lokafjórðunginn með sterkri vörn og höfðu tveggja stiga forystu áður en fjórði leikhlutinn hófst.

Vestri mætti með látum inn í fjórða leikhlutann og náðu ágætri forystu meðan að Dúi Þór fékk smá hvíld á bekknum fyrstu mínúturnar. Forsetaliðið komst hægt og rólega aftur inn í leikinn á sama tíma og ísfirska liðið gerði fleiri og fleiri mistök. Heimamenn áttu betri kafla á lokamínútunum sem skilaði sér að lokum í fimm stiga sigri, 81-76.

Lykillinn

Það duldist engum að Dúi Þór Jónsson var besti leikmaður vallarins enda kom hann vörn Vestra oft í vandræði með snöggum stefnubreytingum og átti nokkrar stórar körfur á lokasprettnum til að innsigla sigrinum. Dúi lauk leik með 35 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar og 62% í skotnýtingu utan af velli.

Hjá Vestra var Nemanja Knezevic framlagshæstur með 21 stig og 18 fráköst.

Vendipunkturinn

Þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum fór Sam Prescott, sem hafði verið nokkuð rólegur fram að því, að hafa sig í frammi. Hann setti nokkra þrista og spilaði kæfandi vörn á leikmenn Vestra sem fóru út úr sínum aðgerðum undir lok leiksins.

Dúi Þór bætti svo nokkrum körfum við á lokasprettinum og gerði eiginlega út um leikinn með erfiðum þrist með 14 sekúndur eftir. Þar með var staðan orðin 81-74 með of lítinn tíma eftir til að Vestri gæti nokkuð gert nema skorað eina körfu í viðbót.

Áhugaverð tölfræði

Þrátt fyrir að Vestri væri með nokkra stóra menn undir körfunni þá töpuðu þeir frákastabaráttunni í leiknum. Liðin tóku jafnmörg varnarfráköst (25 hvort) en Álftanes tók 14 sóknarfráköst gegn aðeins 8 hjá Vestra. Í leik sem er svona naumur getur slíkt skilið á milli.

Það vakti líka athygli að þó að Vestri hafi tapað einum færri bolta og skorað fleiri stig úr töpuðum boltum andstæðinganna þá virtust mistök gestanna vega þyngra en hjá Álftanesi. Stundum segir tölfræðin ekki alla söguna.

Kjarninn

Miðað við ummæli formanns KKÍ í Körfuboltakvöldi eru allar deildir komnar í ótímabundið frí.

Báðir þjálfarar sögðust vera temmilega sáttir ef þetta væri síðasti leikur tímabilsins. Skiljanlega vilja samt bæði lið fá að spila úrslitakeppnina og halda áfram að máta sig við bestu liðin í kringum sig. Það verður bara að koma í ljós.

Margir leikir í síðustu umferð úrvalsdeildar karla voru einkennilegir og spekúlantar töluðu um að menn vissu ekki hvernig þeir ættu að haga sér í leikjunum.

Það var ekki málið í þessum lokaleik (í bili) í fyrstu deild karla. Bæði lið mættu til að spila og gáfu lítið eftir og áhorfendur fóru ekki sviknir frá leiknum, þó sumir gætu hafa verið ósáttir með úrslitin.

Viðtöl eftir leikinn

Hrafn var sáttur eftir leik og talaði vel um tímabilið og uppbygginguna á Álftanesi
Dúi Þór var ánægður með sigurinn og fékk stoðsendingu frá stóra bróður í miðju viðtali
Pétur Már fannst liðið hafa spilað heimskan bolta undir lok leiksins