Bikarmeistarar Stjörnunnar tóku á móti Þórsurum frá Akureyri í 19. umferð Domino’s deildar karla í Mathús Garðabæjar höllinni í kvöld. Fyrir leik voru Garðbæingar í efsta sæti deildarinnar, en Þórsarar sátu í fallsæti og þurftu því nauðsynlega á sigri að halda. Fyrri leikur liðanna í Höllinni á Akureyri var einstaklega spennandi og réðst á flautuþristi frá Nick Tomsick eftir að Þórsarar höfðu leitt nánast allan leikinn, en sá leikur átti ekki eftir að endurtaka sig.

Eftir frábæra byrjun gestanna að norðan komust heimamenn yfir um miðbik fyrsta fjórðungs og höfðu fimm stiga forystu að honum loknum, 26-21. Mikið jafnræði var með liðunum framanaf í öðrum leikhluta, og var staðan jöfn, 39-39 þegar rúmar tvær mínútur lifðu af fyrri hálfleik. Þá settu heimamenn í algeran fluggír, og einni mínútu síðar höfðu Garðbæingar skorað ellefu stig í röð og breytt stöðunni í 50-39. Stjörnumenn bættu einu stigi við áður en hálfleikurinn var úti og höfðu tólf stiga forskot í hálfleik, 51-39.

Þórsarar létu þetta áhlaup Stjörnumanna ekki á sig fá og komu afar sterkir til leiks í þriðja fjórðung, og höfðu fljótlega minnkað forystu Garðbæinga niður í tvö stig, 63-61. Þá, líkt og í fyrri hálfleik, tóku heimamenn annað áhlaup og höfðu áfram tólf stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 77-65.

Í lokafjórðungnum náðu Þórsarar aldrei að ógna forystu Stjörnunnar að ráði og þvert á móti bættu Stjörnumenn einfaldlega í og unnu að lokum öruggan 21 stigs sigur, 107-86.

Af hverju vann Stjarnan?

Þórsarar héldu í við Stjörnuna á löngum köflum í leik kvöldsins, en það voru svakaleg áhlaup heimamanna sem gerðu út um leikinn. 12-0 áhlaup á rúmum tveimur mínútum í lok fyrri hálfleiks og 12-2 áhlaup í lok þriðja fjórðungs gerðu í raun út um leikinn og náðu Þórsarar ekki að komast aftur inn í leikinn eftir áhlaupið í þriðja leikhluta.

Maður leiksins

Erfitt er að taka einn leikmann út í liði Stjörnumanna, en leikur liðsins var mjög jafn. Nick Tomsick skoraði að venju margar fráleitar þriggja stiga körfur og leiddi lið heimamanna með 23 stig, en einnig áttu menn eins og Urald King og Arnþór Freyr Guðmundsson frábæra leiki. King skoraði 18 stig, tók 9 fráköst og varði 3 skot, og Arnþór skoraði 19 stig, þar af fimm þrista með 50% nýtingu.

Framhaldið

Stjörnumenn leika næst gegn KR á útivelli föstudaginn 6. mars, en sama dag spila Þórsarar algeran fallbaráttuslag við Val fyrir norðan.