Tindastóll og KR öttu kappi í Dominos deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

Tindastóll hafði unnið fyrri leik liðanna í haust í gríðarlegum baráttuleik í vesturbænum og menn vissu að þarna yrði stál í stál sem og varð raunin. Gestirnir byrjuðu betur og leiddu allan fyrsta leikhlutann og munurinn varð mestur 12 stig 12-24. Brynjar fór hamförum í leikhlutanum og skoraði 12 stig með 4 þristum. Heimamenn komu aðeins til baka síðustu 2 mínúturnar, mest með gríðarlegri baráttu Helga Rafns fyrirliða sem skilaði líka góðum körfum. Staðan 20-25 að loknum fyrsta leikhluta eftir 8-1 sprett heimamanna.

Annar leikhluti byrjaði líka vel hjá gestunum sem voru að hitta frábærlega og eftir að Kristófer kom þeim í 22-33 með hörkutroðslu tóku Tindastólsmenn aftur við sér og minnkuðu muninn í 4 stig en fengu þá þrist frá Jóni Arnóri í andlitið. Stólar tóku það í fangið eins og annað í þessum leik og héldu áfram að berjast og náðu 11-3 kafla sem tryggði þeim 1 stigs forystu í hálfleik 40-39. Baráttan í varnarleik liðanna var til mikillar fyrirmyndar og menn fleygðu sér á alla lausa bolta.

Bilic byrjaði seinni hálfleikinn á 5 stigum en Brynjar og Dino svöruðu með þristum hinumegin og allt í járnum. Um miðjan leikhlutann tróða Jaka Brodnik tvisvar í röð í andlit festanna og kom heimamönnum í 56-49 sem var mesta forysta heimamanna í leiknum og mikil stemning í stúkunni. Hún entist þó ekki mjög lengi því Matti svaraði með þrist og tvö víti frá Dino komu muninum í 2 stig. Þristur frá Helga Má kom gestunum svo yfir 60-58 og Helgi Rafn fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu. Brynjar nýtti þó bara annað vítið en Crayon náði frákasti og skilaði boltanum niður og allt í einu var forysta gestanna komin í 5 stig 63-58. Leikhlutinn endaði 60-64 KR.

Fjórði leikhluti einkenndist af sömu baráttunni áfram og liðin voru að leika stórskemmtilegan körfuknattleik á báðum endum vallarins. Þristur frá Jakob kom KR í 67-71 og hann fékk víti að auki sem hann klikkaði á og Bilic svaraði með þrist hinumegin og bara eins stigs munur þegar 3 mínútur lifðu leiks. Geiger kom Tindastól yfir en var blokkaður í drasl í næstu sókn af Kristófer en Jasmin Perkovik dúkkaði upp til að taka mikilvægt sóknarfrákast og setti niður sniðskot, 74-71 fyrir heimamenn. Crayon minnkaði muninn í 1 stig með íleggju en síðustu 6 stig heimamanna komu af vítalínunni. Gríðarleg spenna var á lokamínútunni en taugarnar héldu hjá heimamönnum sem sigldu heim sætum sigri.

Geiger var öflugur hjá heimamönnum og skilaði 16 stigum og 4 stoðsendingum. Bilic skoraði einnig 16 stig og reif 8 fráköst og Pétur Rúnar átti fínan leik með 24 stig og 5 fráköst. Þá er rétt að geta frábærrar varnarbaráttu Helga, Perkovic og Viðars sem voru að vinna gríðarlega mikilvæga vinnu sem sást kannski best á því að á meðan Viðar var inná vellinum var Tindastóll að vinna með 11 stigum. Þeir héldu Craion í 11 stigum og aðeins 33% hittni sem vegur þungt í leikjum gegn KR. Hjá gestunum varð Brynjar stigahæstur með 16 stig og skilaði 4 stoðsendingum að auki. Matthías var að hitta mjög vel en skaut ekki svo mikið en Kristóver Acox var framlagshæstur KR-inga í kvöld með 9 stig og 12 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna