Það var vel mætt í Laugardalshöll í kvöld. Bæði liðin, Stjarnan og Tindastóll státa af frábærum stuðningsmönnum sem mæta vel á leiki og það var engin breyting á því í þetta skiptið. Mikið var undir, sæti í úrslitum Geysisbikarsins þar sem Grindvíkingar bíða eftir að hafa unnið sigur á Fjölni fyrr um daginn.
Eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á áhlaupum tóku Garðbæingar öll völd í seinni hálfleik og hreinlega kjöldrógu lánlausa Sauðkrækinga. Lokatölur 70-98.
Stigahæstur Stjörnumanna í kvöld var Nick Tomsick með 27 stig en hjá norðanmönnum var Jaka Brodnik atkvæðamestur með 16 stig.

Tölfræðin Lýgur Ekki
Stjörnumenn voru einfaldlega betri á öllum sviðum körfuboltans í kvöld, sigurinn var í raun auðveldur í seinni hálfleik þrátt fyrir að Tindastóll hafi verið með jafnan leik í fyrri. Stjörnumenn unnu frákastabaráttuna 50-36, gáfu 7 fleiri stoðsendingar og hittu miklu betur. 36% gegn 28% í þriggja stiga skotum og 66% gegn 37% úr tveggja stiga skotum

Hægir á fótunum
Miðherjar Tindastóls voru í stökustu vandræðum í kvöld á varnarhelmingi. Bæði Jasmin Perkovic og Helgi Viggósson litu oftar en ekki illa út varnarlega hvort sem það var í hjálparvörn, vörn í boltahindrunum eða einfaldlega að mæta út í skyttur. Undirrituðum þótti mun meiri bragur á leik Tindastóls þegar að þeir spiluðu ekki með hefðbundinn miðherja.

Allir með
Stjörnumenn, þrátt fyrir að hafa fengið lítið sóknarframlag frá þeim Gunnari Ólafssynu, Urald King og Arnþóri Guðmundssyni voru virkilega skemmtilegir á að horfa sóknarlega. Flestir tóku þátt í sóknarleiknum og skiluðu góðu framlagi. Ægir með 15 stoðsendingar, Tomsick með 27 stig, Johnson með 22 stig, Hlynur með 13 stig og 11 fráköst og Tómas með 13 stig og 13 fráköst.

Úrslitaleikur
Úrslitaleikur Stjörnunnar og Grindavíkur fer fram næstkomandi laugardag kl 13:30. Talsverð dramatík hefur verið í samskiptum liðanna eftir að ljóst var að Seth LeDay, bandarískur leikmaður Grindavíkur verður í banni eftir að hafa slegið Kyle Johnson í höfuðið í síðasta leik liðanna þegar að boltinn var víðs fjarri. Þetta verður veisla.

Tölfræði leiksins
Myndasafn(Bára Dröfn)