Stjarnan varð í kvöld Geysisbikarmeistari í 10. flokk drengja eftir sigur á Breiðablik, 68-69. Liðið því eiginlega að verja þennan titil sinn, en flokkurinn varð í fyrra meistari í 9. flokk drengja.

Leikur kvöldsins var jafn og spennandi í fyrri hálfleiknum. Breiðablik hænuskrefi á undan eftir fyrsta leikhlutann, 18-15. Undir lok fyrri hálfleiksins nær Stjarnan svo að snúa taflinu við og eru 5 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 37-42.

Í upphafi seinni hálfleiksins gengu Garðbæingar svo enn frekar á lagið og ná á tímabili 17 stiga forystu. Blikar gera þó vel í að brjóta það forskot niður og eru aðeins 4 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 52-56.

Þegar um þrjár mínútur eru liðnar af fjórða leikhlutanum fullkomna Blikar svo þessa endurkomu sína, með laglegum stolnum bolta og körfu frá Arnari Frey Tandrasyni, 57-56. Lokamínúturnar voru svo æsispennandi, þar sem að liðin skiptust í ein sex skipti á að hafa forystuna. Að lokum voru það þó Stjarnan sem náði tveimur góðum stoppum sem skiluðu stigum á sóknarhelming vallarins sem sigldu sigrinum í höfn, 68-69.

Atkvæðamestur fyrir Stjörnuna í leiknum var Sigurður Rúnar Sigurðsson með 22 stig og 15 fráköst. Fyrir Breiðablik var það Arnar Freyr Tandrason sem dróg vagninn með 24 stigum og 7 fráköstum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Myndir / Bjarni Antonsson