Undanúrslit Geysisbikars kvenna 2020 fara fram í dag með tveimur leikjum. Seinni leikur dagsins er milli Skallagríms og Hauka.

Skallagrímur hefur aðeins einu sinni komist í bikarúrslitaleikinn og tapaði þá gegn „Litlu slátrurunum“ úr Keflavík árið 2017.

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir hefur farið nokkuð oftar en það í bikarkeppnir og hefur spilað fyrir Hauka, Hamar, KR og Grindavík í bikarnum. Fyrirliði Skallagríms hefur farið átta sinnum í undanúrslit bikarsins og unnið þrisvar sinnum, tvisvar með Haukum og einu sinni með KR.

Borgnesingar eru í mikilli baráttu um úrslitakeppnisæti í Dominosdeild kvenna við andstæðinga sína Haukastúlkur (ásamt Keflvíkingum) og því er von á rosalegri viðureign. Skallagrímur hefur unnið tvo af þrem leikjum gegn Haukum á tímabilinu en hafnfirska liðið vann síðasta leikinn sinn gegn þeim og hafa verið mjög góðar eftir að þær fylltu út lið sitt með Randi Brown.

Karfan ræddi við Sigrúnu Sjöfn á blaðamannafundi fyrir bikarvikuna og viðtalið við hana má finna í heild sinni hér að neðan.

Leikurinn hefst kl 20:15 og skorum við á alla stuðningsmenn liðanna að mæta. Fyrir þá sem ekki komast er leikurinn sýndur í beinni á Rúv 2.