Tindastóll tók á móti Keflavík b í 1. deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu í dag.

Jafnt var á komið með liðunum í byrjun, hittnin ekki sérstök en barátta á báðum endum vallarins. Marín kom heimastúlkum í 8-2 með þristi eftir 4 mínútur og heimastúlkur virkuðu frískari. Gestirnir unnu sig þó fljótlega inn í leikinn og refsuðu þegar sóknir heimastúlkna klikkuðu. 17-14 að loknum fyrsta leikhluta.

Annar leikhluti þróaðist á svipaðan hátt, gestirnir áttu í erfiðleikum með Tessondru og Marín fór að láta til sín taka í sókninni. Eftir frábæran þrist frá Karen náðu heimastúlkur 12 stiga forystu 32-20 en sofandaháttur næstu 30 sekúndurnar gáfu gestunum 5 stig í röð og Árni tók leikhlé. Það dugði þó ekki því Anna Ingunn og Eydís Eva söxuðu áfram á forskotið og Agnes María minnkaði muninn í 2 stig 34-32 og það var staðan í hálfleik.

Heimastúlkur héldu forystunni vel inn í þriðja leikhlutann en þegar hann var rúmlega hálfnaður stal Anna Ingunn boltanum og Hera Sigrún fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu við að reyna að ná honum aftur. Anna Ingunn setti bæði vítin niður og smellti niður þristi í sókninni á eftir og skyndilega var Keflavík b komnar yfir 45-46. Þær héldu forystunni og bættu aðeins við fyrir lokaleikhlutann 49-52.

Agnes María byrjaði fjórða leikhlutann með flottum þrist og forysta gestanna komin í 6 stig, 49-55 og öll stemning með gestunum. Heimastúlkur áttu í raun ekki svar við leik Keflavík b í fjórðaleikhluta, voru að fá sín skot en oftast vildi boltinn ekki niður á meðan sóknin gekk vel hinumegin og gestirnir gerðu vel í að halda Tess frá boltanum. Rakel minnkaði muninn með þrist af spjaldinu 52-55 en svo tók Anna Ingunn yfir leikinn og skoraði 11 af næstu þrettán stigum gestanna sem stungu heimastúlkur af. Þristur frá Hjördísi Lilju þegar 2 mínútur voru eftir reyndist síðasta karfa leiksins og 12 stiga sigur gestanna staðreynd.

Marín Lind og Eva Rún voru einna sprækastar heimastúlkna auk Tessondru en það dró mjög af henni þegar leið á leikinn. Hjá gestunum voru þær systur, Anna Ingunn og Agnes María Svansdætur í feiknaformi, Anna Ingunn skilaði 27 stigum og 26 framlagspunktum á 34 mínútum og Agnes María bætti við 10 stigum og frábærri vörn. Eydís Eva átti líka frábæran leik með 16 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar.

Myndasafn

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir & viðtöl / Hjalti Árna