Botnlið Fjölnis tók á móti ÍR, sem var í 7. sæti deildarinnar, í 18. umferð Domino‘s deildar karla í kvöld. Fjölnir gat teflt upp sínu sterkasta liði en ÍR lék án Roberto Kovac sem meiddist gegn Þór Akureyri í janúar og Sigurði Þorsteinssyni sem meiddist í haust. Í upphafi voru u.þ.b. 70 manns mættir í stúkuna í Dalhúsi.

Leikurinn var spennandi og skemmtilegur allan leikinn, ÍR virtist vera með þetta í hendi sér þegar minna en ein og hálf mínúta var eftir, níu stiga forysta, en Fjölnir var grátlega nálægt því að krækja í sinn annan deildarsigur í vetur. Eins og Falur, þjálfari Fjölnis, sagði í viðtali eftir leik þá er þetta ekki fyrsta tapið í vetur með einungis einu stigi.

Gangur leiks:

Fjölnir leiddi 24-21 eftir fyrsta leikhluta sem var frekar kaflaskiptur. ÍR skoraði mest tíu stig í röð og Fjölnir sjö. Fjölnir var með helmingsnýtingu (5 af 10) úr þriggja stiga tilraunum sínum í fyrsta leikhluta.

Fjölnir hitti ekki úr næstu sjö skotum sínum fyrir aftan þriggja stiga línuna og ÍR leiddi með fimm stigum þegar Borche, þjálfari ÍR, tók leikhlé þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Jere setti svo að sjálfsögðu næsta þriggja stiga skot niður og þó að þú, lesandi, trúir því ekki þá setti Orri niður þrist í næstu sókn og kom Fjölni yfir. ÍR leiddi með fjórum stigum, 40-44, í leikhléi.

ÍR jók muninn í upphafi þriðja leikhluta en Fjölnir náði að loka betur varnarlega þegar leið á. Þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum tók Borche leikhlé þegar ÍR leiddi með þremur stigum, 55-58. Staðan undir lok leikhlutans var jöfn, 61-61.

ÍR leiddi 69-67 þegar fimm og hálf mínúta var eftir. Teddi, leikmaður Fjölnis, virkaði eins og hann hefði dripplað boltanum yfir öxlina og bekkur ÍR lét í sér heyra í of langan tíma og á endanum var dæmd tæknivilla á bekkinn. Bekkurinn vildi meina að Teddi hefði þá farið undir boltann og þar með í raun tekið upp dripplið. Dómarar mátu það ekki á þann hátt.

Gífurleg spenna undir lokin:

ÍR leiddi með níu stigum þegar 85 sekúndur lifðu leiks, 73-82 var staðan. Jere minnkaði muninn í næstu sókn og Tómas Heiðar fiskaði sóknarvillu á Evan í næstu vörn. Evan var ósáttur með þá villu og hélt áfram að kvarta og fékk tæknivillu fyrir að benda dómurunum á að Róbert gerði það sama við hann og dæmt hefði verið á sig. Srdan minnkaði muninn enn frekar og munurinn orðinn sex stig.

Daði Berg braut af sér og Srdan fór á línuna og setti niður bæði stigin, fjögurra stiga munur. Danero Thomas átti vonda sendingu sem Victor Moses komst inn í í næstu sókn. Srdan fékk færi og tók þriggja stiga skot sem geigaði en Moses hirti frákastið, setti tvö stig niður og bætti við öðru af vítalínunni þar sem brotið var á honum, eins stigs munur.

21 sekúnda eftir og Róbert braut á Georgi og sendi hann á línuna. Georgi missti bæði og Fjölnir gat stolið sigrinum. Róbert keyrði á körfuna, gaf boltann út á Tómas Heiðar sem fékk frekar opið þriggja stiga skot en það vildi ekki niður og ÍR sigraði leikinn. 

Tölfræðin lýgur ekki:

Skotnýting ÍR var einfaldlega betri en skotnýting Fjölnis í leiknum. 34% þriggja stiga nýting gestanna gegn 18% hjá heimamönnum vóg þungt. Fjölnir fékk þá einungis fjögur stig af bekknum í kvöld gegn sautján hjá gestunum.

Hetja leiksins: Evan Singletary

Evan Singletary var einfaldlega besti maður vallarins í kvöld. Hann skoraði 28 stig, tók tíu fráköst og gaf níu stoðsendingar. Alls 35 í framlag. Borche skaut samt aðeins á leiðtoga sinn í viðtali eftir leik. Borche var ekki ánægður með tæknivilluna sem Evan krækti sér í á mikilvægum tímapunkti í leiknum.

Skotval Fjölnis í fyrri hálfleik:

Í fyrri hálfleik tók Fjölnir 23 þriggja stiga skot en aðeins fjórtán tveggja stiga skot. 9 af 14 innan þriggja stiga línunnar en 7 af 23 utan hennar. Svo því sé haldið til haga þá fjölgaði þristunum mikið hjá ÍR og enduðu þeir með hærra hlutfall þriggja stiga tilrauna heldur en heimamenn. Fjölnir sótti meira inn í teig í seinni hálfleik og endaði með fleiri tveggja stiga tilraunir en þriggja stiga.

EKKI flautukarfa fyrir aftan miðju:

Trausti Eiríksson stimplaði sig heldur betur inn undir lok fyrri hálfleiks þegar hann smellti niður þrist vel fyrir aftan miðju. Ekki er hægt að kalla þetta flautukörfu því um fjórar sekúndur voru enn eftir þegar boltinn fór ofan í. Trausti hafði komið inn á innan við mínútu áður í fyrsta sinn í leiknum. ÍR leiddi með fjórum stigum, 40-44, í leikhléi. Trausti kom ekki meira við sögu í leiknum.

Fundarhöld við ritaraborðið:

Þegar tvær og hálf mínúta lifði leiks braut Florian á Jere sem fór á vítalínuna þar sem Fjölnis-liðið var komið í bónus. Einn af  dómurum leiksins lét Jere hafa boltann í tvígang og setti hann boltann ofan í í bæði skiptin. Vítin töldu ekki því hinir tveir dómararnir voru að ræða málin utan vallar. Jere setti fyrra vítið ofan í eftir fundinn en seinna vítið fór ekki niður (73-78).

Slegið í spjaldið?:

Þegar skammt var eftir af leiknum átti Evan Singletary skot sem fór í hringinn og þá virtist sem leikmaður ÍR hafi slegið í spjaldið. Ekkert var dæmt og boltinn lak ofan í eftir skot Evan. Falur var ósáttur við dóminn og tjáði hann sig um það í viðtali eftir leik.

Tölfræði leiks

Myndasafn