Haukar frá Hafnarfirði mættu í Hertz-Hellinn í Breiðholtinu í kvöld til þess að spila við ÍR. Haukarnir báru sigurorð af Þór Þorlákshöfn í síðustu umferð en ÍR tapaði fyrir KR í vesturbænum.

Leikurinn var jafn mestallan fyrri hálfleik þar sem gestirnir voru aðeins framar en ÍR tók stjórnina í þriðja leikhluta og komust mest 10 stigum yfir. Haukar reyndust þó sterkari aðilinn í fjórða leikhluta og unnu að lokum sanngjarnan sigur, 93-100.

Stigahæstur Hauka var Flenard Whitfield sem var með 29 stig og 15 fráköst og Kári Jónsson bætti við 22 stigum og 11 stoðsendingum en hjá heimamönnum var Evan Singletary atkvæðamestur með 30 stig og 5 stoðsendingar.

Tölfræðin lýgur ekki
Haukaliðið hreyfir boltann virkilega vel og að mati undirritaðs var það sú staðreynd sem fleytti liðinu til sigurs í kvöld. 26 stoðsendingar hjá Haukum gegn einungis 14 hjá ÍR-ingum. Kári Jónsson leiddi alla leikmenn með 11 stoðsendingar og voru margar þeirra gullfallegar.

Vendipunkturinn
Israel Martin, þjálfari Hauka tók þá ákvörðun að tvöfalda á Evan Singletary síðari helming fjórða leikhluta. Alltaf þegar að Singletary fékk boltann á kantinum, eða fór þangað sjálfur var tvöfaldað og ÍR var í tómu basli að koma boltanum í góðar sóknarstöður enda skoruðu þeir einungis 19 stig í leikhlutanum. Vel gert hjá Martin og Haukavörninni.

Dómarar og dómaravæl
Þetta var að mati undirritaðs frekar skemmtilegur leikur, en það eina sem skyggði á það var endalaust væl bæði leikmanna og þjálfara í dómurum leiksins. Bæðir Borche þjálfari ÍR og Israel þjálfari Hauka fengu tæknivillur í fyrri hálfleik fyrir stanslaust kvabb eftir hvern einasta dóm(eða ekki dóm). Það hjálpaði reyndar ekki að dómarar leiksins leyfðu svakalega mikla snertingu “frá boltanum” en voru fljótir að flauta við litlar snertingar á þann sem hafði boltann.

Framhaldið
Haukarnir eru komnir í fína stöðu, sitja í fjórða sæti deildarinnar með 22 stig en ÍR er með 16 stig í sjöunda sæti. Í næstu umferð skella Breiðhyltingar sér í Grafarvoginn á meðan Haukar fá Tindastól í heimsókn í leik sem skiptir miklu máli upp á stöðuna í deildinni.

Tölfræði leiksins
Myndasafn(Þorsteinn Eyþórsson)