Njarðvíkurstúlkur gerðu góða ferð norður í Skagafjörð þar sem þær unnu sigur á heimastúlkum í Tindastól í fyrstu deild kvenna í körfuknattleik í dag.

Tindastóll byrjaði leikinn vel og komust í 12-6 forystu snemma og Njarðvík tók leikhlé. Gestirnir komu til baka sterkar eftir leikhléið og átu upp forskot heimakvenna smám saman og komust yfir, staðan 18-20 eftir fyrsta leikhluta. Gestirnir skoruðu svo fyrstu 6 stig annars leikhluta og neyddu heimakonur í leikhlé eftir rúma mínútu. Heimakonur komu sér inn í leikinn aftur með mikilli baráttu og í hálfleik munaði enn aðeins 2 stigum á liðunum, gestirnir með 34-36 forystu.

Tess setur 3 stig

Gestirnir hófu seinni hálfleikinn með mjög ákveðnum leik á meðan heimastúlkur áttu í erfiðleikum með að finna leiðina að körfunni. Eftir rétt tæplega þriggja mínútna leik var forysta gestanna orðin 10 stig og heimastúlkur virtust finna mikið fyrir mótlætinu. Gestirnir spiluðu ákafa vörn og komust upp með að spila mjög fast á Tess sem gerði henni auðvitað erfitt fyrir. Síðustu mínútu leikhlutans fóru heimastúlkur illa að ráði sínu og gestirnir breyttu stöðunni úr 45-58 í 67-47 með 9-2 kafla á síðustu mínútunni. Segja má að þarna hafi leikurinn runnið heimastúlkum úr greipum þó þær hafi náð upp ágætis baráttu um miðjan síðasta leikhlutann þá var munurinn einfaldlega orðinn of mikill. Lokatölur 70-86 fyrir gestina sem tóku fram úr Tindastól í deildinni með sigrinum.

Tess Williams var öflug fyrir heimastúlkur að vanda með 34 stig og 7 fráköst en aðrir leikmenn áttu frekar erfiðan dag. Eva Rún bætti 11 stigum við en heimastúlkur hefðu þurft á framlagi frá fleirum að halda. Eins var frákastabaráttan heimastúlkum erfið og gestirnir tóku 53 fráköst í leiknum gegn 39 hjá heimastúlkum. Lið gestanna var mun jafnara og 4 leikmenn skoruðu yfir 10 stig í leiknum, Jóhanna Lilja stigahæst með 20 stig. Vilborg átti frábæran leik og hlóð í þrennu með 11 stig, 10 fráköst og 11 stoðsendingar.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna