Tindastóll tók á móti Valsmönnum í hörkuspennandi leik í Dominos deild karla í körfuknattleik í kvöld. Gestirnir höfðu betur í fyrri viðureign liðanna í haust eftir framlengingu og bjuggust flestir við spennandi leik sem varð og raunin.

Gestirnir byrjuðu betur með PJ og Austin í miklum ham og gekk heimamönnum illa að finna taktinn í vörninni gegn ákveðnu Valsliði. Hittnin var til fyrirmyndar hjá gestunum og það var ekki fyrr en um 8 mínútur voru liðnar af leiknum sem heimamenn náðu að rykkja aðeins frá gestunum með góðum þrist frá Axel sem kom þeim í 22-17. Liðin skiptust á körfum út leikhlutann og staðan 27-23 að honum loknum eftir fallegt skot frá Viðari á lokasekúndunum. Simmons kom Tindastól í 29-23 í byrjun annars leikhluta en gestirnir svöruðu fljótt með 12-2 kafla og í stöðunni 31-35 tekur Baldur leikhlé. Varnarleikur heimamanna var í molum og Valsmenn voru að fá frekar auðveld skot sem þeir settu niður, sérstaklega Austin Magnus Bracey sem fór hreinlega á kostum. Jeremy Geiger fór að hitna hjá Tindastól og setti niður góð skot og Sinisa Bilic fór líka að láta finna fyrir sér en Naor Sharabani sá til þess að staðan var jöfn í hálfleik 47-47.

Þriðji leikhluti var líkur hinum fyrri í því að liðin skiptust á að skora en alls skiptust liðin 28 sinnum á því að hafa forystu í leiknum sem sýnir vel hversu jöfn viðureign þetta var. Austin og PJ héldu áfram að gera vörn heimamanna lífið leitt og Raggi Nat átti góða innkomu seinni hluta þriðja leikhluta og réðu heimamenn lítið við hann. Simmons minnkaði muninn í tvö stig með frábærri körfu á síðustu sekúndu þriðja fjórðungs, 72-74 fyrir gestina. Simmons kom heimamönnum svo yfir í byrjun fjórða leikhluta með 3 vítum eftir T á Ragga Nat og þristur frá Axel kom stöðunni í 78-74 eftir mínútu leik og héldu flestir í stúkunni að Tindastóll væri að ná yfirhöndinni. Bracey og Sharabani svöruðu hinsvegar með snöggum 5 stigum og Valur kominn aftur yfir og mikið eftir af leiknum.

Leikurinn var í járnum það sem eftir var og þegar 49 sekúndur lifðu leiktímans náði Bilic að jafna og fékk víti að auki sem hann nýtti og kom heimamönnum yfir 89-88. Pavel Ermolinski fékk svo dæmda á sig sóknarvillu í næstu sókn Valsmanna og heimamenn fengu boltann stigi yfir þegar aðeins 47 sekúndur voru eftir. Bilic fékk boltann og æddi að körfunni, hélt að brotið hefði verið á sér en ekkert var dæmt og Valsmenn brunuðu fram með hálfa mínútu á klukkunni. Sharabani náði að þræða sig í gegnum vörn Tindastóls og setja niður gott sniðskot. Heimamenn fengu boltann með nógan tíma eftir og lokasóknin gekk vel nema að Pétur Rúnar klikkaði á galopnum þrist og þarmeð endaði sigurinn hjá gestunum sem fögnuðu vel og innilega í leikslok.

Tindastólsliðið virkaði ekki rétt stillt inn á þennan leik efti rfrábæran sigur á Þór Ak. í bikarnum. Vörnin náði sér aldrei á strik og sóknarleikurinn var stirður á köflum. Jeremy Geiger lék sinn fyrsta leik með Stólunum og var fremur rólegur af stað en náði sér ágætlega á strik þegar leið á leikinn og endaði með 18 stig. Bilic var stigahæstur með 20 stig og Jaka bætti 16 á töfluna en Pétur Rúnar náði sér ekki á strik sóknarlega og skoraði aðeins 2 stig. Hjá gestunum var Austin Bracey í miklu stuði og klikkaði varla á skoti, hitti 4/5 í tveggja stiga og 6/7 í þristum og endaði með 32 stig. PJ Alawoya var líka illviðráðanlegur og endaði með 22 stig og 13 fráköst. Sharabani átti einnig góðan leik með 16 stig og 8 stoðsendingar og Pavel Ermolinski skilaði dæmigerðum Pavel tölum, skoraði reyndar aðeins 2 stig en 10 fráköst og 10 stoðsendingar bættu það upp með vöxtum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir og viðtöl / Hjalti Árna