Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Njarðvík í Mathús Garðabæjarhöllinni í sextándu umferð Domino’s deildar karla. Garðbæingar komu inn í leikinn í miðri ellefu leikja sigurhrinu, sem hófst einmitt með sigri þeirra í Njarðvík í sannkölluðum naglbít eftir eftirminnilega flautukörfu frá Nick Tomsick, og sátu á toppi deildarinnar með 26 stig.

Það var þó lið Njarðvíkur sem byrjaði mun betur í Garðabænum, og voru komnir með 10 stiga forystu, 2-12, strax um miðbik fyrsta leikhluta. Vörn gestanna var einnig frábær og skoruðu Stjörnumenn sína aðra köfu þegar rétt um sex mínútur voru liðnar af leiknum. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 13-18, gestunum í vil, og virtust heimamenn eitthvað slegnir út af laginu. Njarðvíkingar héldu áfram að þjarma að Stjörnumönnum í öðrum leikhluta og voru með 6-10 stiga forskot allan leikhlutann, en Garðbæingar héldu þó haus og bættu stöðu sína aðeins, ekki síst þökk sé tveimur þristum frá Arnþóri Guðmundssyni og Nick Tomsick undir lok leikhlutans, sem minnkaði muninn niður í tvö stig í hálfleik, 36-38.

Í þriðja leikhluta opnuðust hins vegar allar flóðgáttir hjá Stjörnumönnum og liðið náði að spila þann “transition” körfubolta sem þeir gera best. Vörn heimamanna skellti í lás og hver þristurinn og glæsikarfan fór ofan í sóknarmeginn. Eftir hreint magnaðan flautuþrist Nick Tomsick undir lok leikhlutans höfðu Stjörnumenn fimmtán stiga forskot, 69-54 fyrir lokaleikhlutann og ljóst að gestirnir myndu þurfa allt að því kraftaverk til að snúa leiknum sér í hag að nýju.

Liðin skiptust á að skora fyrst um sinn í lokafjórðungnum, en þegar allt virtist stefna í frekar þægilegan Stjörnusigur tóku Njarðvíkingar ótrúlegt áhlaup og í stöðunni 79-68 tóku Njarðvíkingar hreint út sagt magnað áhlaup, sem endaði á því að Chaz Williams skoraði magnaða körfu og fékk villu að auki þegar þrjár mínútur lifðu af leiknum, og kom Njarðvíkingum yfir í stöðunni 79-80. Mörg lið hefðu brotnað saman við þessa mótspyrnu, en Stjörnumenn eru ekki á toppi deildarinnar að ástæðulausu. Garðbæingar svöruðu þessu áhlaupi með sínu eigin og kæfðu leikinn loks með skynsömum leik, lokatölur 89-84.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn hafa oft spilað betur en í kvöld, og eiga Njarðvíkingar hrós skilið fyrir leik sinn í fyrri hálfleik þar sem fátt gekk upp hjá heimamönnum. Í raun er ótrúlegt að forysta Njarðvíkur hafi aðeins verið tvö stig í hálfleik, því gestirnir voru áberandi betra liðið á vellinum í fyrri hálfleik. Í flestum íþróttum eru það þó stigin á töflunni sem telja, en ekki frammistöðumat áhorfenda, og eftir þriðja leikhluta virtist hið raunverulega Stjörnulið hafa risið á fætur og mætt til leiks. Þrátt fyrir flottan lokafjórðung hjá Njarðvík voru Stjörnumenn einfaldlega sterkari undir lok leiks og lönduðu góðum sigri.

Maður leiksins

Kyle Johnson var eini Stjörnumaðurinn með lífsmarki í upphafi leiks og hélt heimamönnum algerlega inni í leiknum á köflum. Í seinni hálfleik tók Nick Tomsick svo við stigaskoruninni, en Tomsick lauk leik með 20 stig, líkt og Urald King. Maður leiksins var hins vegar Ægir Þór Steinarsson í liði Stjörnunnar. Ægir skoraði 13 stig, gaf átta stoðsendingar í öllum regnbogans litum, og spilaði þar að auki frábæra vörn gegn Chaz Williams í liði Njarðvíkur. Frábær leikur hjá Ægi.

Hjá Njarðvík stóðu Chaz og Aurimas Majauskas upp úr með 20 stig hvor, en Logi Gunnarsson setti líka lykilþrista á mikilvægum augnablikum í fjórða leikhluta.

Framhaldið

Stjörnumenn taka á móti Grindavík í næsta leik sínum, mánudaginn 3. febrúar. Sama dag taka Njarðvíkingar á móti Valsmönnum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Myndir / Bára Dröfn