Þórsarar lönduðu þriggja stiga sigri gegn Haukum í fyrsta leik síðari umferðar Domino´s deildar karla í körfubolta lokatölur 92-89.

Segja má að leikur Þórs og Hauka í 12. Umferð Domino´s deildar karla í körfubolta hafi verið hin besta skemmtun enda æsispennandi allt frá fyrstu mínútu til loka leiks.

Það voru gestirnir sem byrjuðu betur lengst af í fyrsta leikhluta en Þórsarar voru duglegri við að safna villum og áður en leikhlutinn var úti var Terrance komin með þrjár villur. Þegar um hálf mínúta var eftir að fjórðungnum leiddu gestirnir með tveim stigum 19-21 og þegar 10 sekúndur voru eftir á klukkunni setti Hansel niður þrist og kom Þór yfir 22-21 og þannig var staðan þegar annar leikhlutinn hófst. Ljóst á fyrsta leikhlutanum að það stefndi í jafnan og spennandi leik en heyra mátti á stuðningsmönnum Þórs að mönnum þóttu sýnir menn fá óþarflega margar villur.

Annar leikhlutinn var afar jafn og spennandi og skiptust liðin á að leiða en munurinn sjaldan meiri en 2-3 stig. En þegar 30 sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik var munurinn fimm stiga 46-41 en gestirnir bættu við tveimur stigum áður en fyrri hálfleik lauk og munurinn á liðunum í hálfleik 3 stig 46-43.

Fyrri hálfleikurinn var í heild hin besta skemmtun og heldur fór að draga saman með liðunum í hálfleik þ.e. varðandi villur og róaði það stuðningsmenn Þórs sem fram að þessu höfðu eins og áður segir þótt heldur halla á sitt lið.

Snemma í þriðja leikhluta náðu gestirnir að jafna leikinn 49-49 en þá bættu Þórsarar í og þéttu raðirnar og leikmenn Þórs börðust eins og ljón og ljóst að trúin á verkefnið væri nú til staðar. Þór komst svo aftur yfir 50-49 og létu þá forystu aldrei af hendi og þegar fjórði leikhlutinn hófst hafði Þór 7 stiga forskot 63-56.

Líkt og í fyrstu þremur leikhlutunum buðu bæði lið upp á fína skemmtun og umfram allt spennu sem náði hámarki undir lok leiks. Mínúta til leiksloka og munurinn aðeins tvö stig 88-87 og þá fór um stuðningsmenn Þórs sem minnast þess enn tárum þegar Stjörnumenn hirtu sigurinn á ævintýralegan hátt.

Í þessari stöðu setu Hansel niður tvö víti 90-87 og skömmu síðar gerir Kári Jónsson slílkt hið sama og kemur muninum niður í eitt stig 90-89 og 45 sekúndur eftir af leiknum. Þegar klukkan sýndi 39:47 reynir Kári þriggja stiga skot sem geigar og í kjölfarið setur Júlíus Orri niður tvö stig staðan 92-89 og Haukar taka leikhlé og 8 sekúndur eftir. Á þeim tíma nær Kári að skjóta tveimur skotum utan þriggja stiga línunnar en bæði geiga Þór fagnaði þriggja stiga sigri 92-89.

Annar sigurleikur Þórs í deildinni og jafnframt fyrsti sigurinn í vetur á heimavelli staðreynd.

Eins og fram kemur í viðtali við Lárus þjálfara í leikslok hefði sigurinn í raun geta dottið hvoru megin sem var, svo jafn og spennandi var leikurinn. En segja má að sigur Þórs sé liðaheildarinnar. Alls komu níu leikmenn Þórs við sögu í leiknum og skiluðu þeir allir góðu dagsverki og náðu allir nema einn að skora í dag. Hjá gestunum komu alls átta leikmenn við sögu og sjö þeirra ná að skora og þeirra langbesti maður Gerald Robinson var með 29 stig.

Hjá Þór var Pablo stigahæstur með 18 stig 10 fráköst og 3 stoðsendingar, Júlíus Orri var einnig öflugur og skoraði 17 stig var með 5 fráköst og 3 stoðsendingar. Þeir Pablo og Júlíus Orri voru báðir með 19 framlagspunkta. Hansel var með 14 stig og 5 stoðsendingar, Mantas 13 stig, Terrence 12 stig og 8 fráköst, Erlendur Ágúst 10 stig og 5 fráköst, Jamal 7 stig og 4 fráköst, Baldur Örn 1 stig og 5 fráköst, Kolbeinn Fannar spilaði flotta vörn eins og honum er lagið og var með eina stoðsendingu.

Hjá Haukum var eins og áður sengir Gerald stigahæstur með 29 stig, Gunnar Ingi 18 stig, Kári Jónsson 12 stig 3 fráköst og 4 stoðsendingar, Emil Barja 9 stig 4 fráköst og 7 stoðsendingar, Kristinn Marinós 5 stig og Breki 2 stig og 5 fráköst.

Eftir sigurinn í kvöld er Þór komið með 4 stig og hafði sætaskipti við Fjölni sem nú vermir botnsætið með 2 stig. Og næsta verkefni Þórs verður að sækja lið Fjölnis heim en eini sigur Fjölnis í vetur var einmitt gegn Þór í leik sem fram fór í íþróttahöllinni. Það verður eins og Lalli sagði í viðtali við Þór tv ,,leikurinn”.

Hér að neðan eru svo viðtöl við þá Pablo Hernández og Lárus Jónsson. Spyrill í viðtalinu við Pablo var Haraldur Ingólfsson.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Palli Jóh) Væntanlegt

Umfjöllun, myndir & viðtöl / Palli Jóh